þetta er allt blekking

skoða

16.10.04

V - Lífvana tréð

Þrátt fyrir lætin í kóngulónum voru uppvakningarnir undarlega rólegir yfir þessu öllu saman. Í stað þess að öskra upp yfir sig af hræðslu lágu þeir einfaldlega kyrrir og leyfðu kóngulónum að koma hlaupandi til þeirra, án þess að reyna nokkuð að losa sig úr vefnum. Slík viðbrögð hefðu kannski verið vel til þess fallin að ýta undir þann misskilning að uppvakningar séu heimskar skepnur, því auðvelt er að álykta að þeir skynjuðu hreinlega ekki hættuna sem þeir voru í. En eins og kom fram í síðasta kafla er slík ályktun bæði röng og klaufaleg; uppvakningar eru þvert á móti ákaflega gáfaðir. Þeir vissu því að þeir hefðu ekkert að óttast í ríki kóngulónna.

Nú kann einhver að staldra við og spyrja sjálfan sig: Hvers vegna í ósköpunum eru uppvakingar svona sjálfumglaðir? Hvers vegna eru þeir svona vissir um að þeim stafi engin hætta af kóngulónum? Svarið við því er í sjálfu sér einfalt: Uppvakningar eru ákaflega fróðir um líf og starfsemi kóngulóa. Þeir vita til dæmis fullvel að kóngulær eru ekki skordýr, heldur áttfætlur. Þeir vita einnig fullvel að þó meðallíftími karlkyns kóngulóa sé um eitt ár, þá eru til þess dæmi að kvenkóngulær hafi lifað í áratug. Og þeir vita líka fullvel - og eru reyndar um það sérlega meðvitaðir - að kóngulær drepa ekki bráð sína strax, heldur lama líkamsstarfsemi hennar með eitri sínu og gæða sér síðan á henni á meðan hún er enn á lífi. Kóngulær hafa ekki nokkurn áhuga á að éta löngu dautt hræ. Ef út í það er farið er fátt sem fer jafnmikið í taugarnar á kónguló og ef dautt skordýr eða laufblað fýkur í vef hennar. Í hennar augum er slíkt ekkert annað en argasta rusl og hendir hún því slíku úr vef sínum aftur, án þess að gæða sér á því.

Það sem uppvakningarnir voru semsagt réttilega búnir að álykta var að kóngulónum myndi aldrei detta í hug að leggja sér þá til munns. Þeir eru ekki lifandi bráð, heldur löngu dauðir og byrjaðir að rotna. Og það sem meira er, þó svo kóngulærnar myndu aðeins höggva í þá til að athuga hvort þeir væru ekki á lífi, þá höfðu þeir ekkert að óttast, því bæði finna uppvakningar ekki til sársauka, en einnig rennur ekkert blóð í þeim sem gerir þá ákaflega ómóttækilega fyrir alls kyns eiturstungum. Það var þess vegna sem þeir biðu sallarólegir á meðan kóngulærnar hlupu þá uppi.

Það fór líka svo að þegar kóngulærnar náðu þeim, fálmuðu aðeins í þá með oddhvössum gripklónum, nörtuðu í þá og þefuðu af þeim, þá hættu þær við átið.
"Oj, þeir eru dauðir," sagði ein þeirra og lét smella í kjaftkrókunum.
"Það er nú meiri stybban af þeim," sagði önnur og bakkaði úr hópnum.
"Hvað á þetta eiginlega að þýða? Þeir voru lifandi rétt áðan," hvæsti sú þriðja og hvessti augun á uppvakningana.
"Það getur ekki verið, þeir hljóta að hafa dottið ofan úr laufþykkninu eða eitthvað," stundi sú fjórða og hristi búkinn ámátlega.
"Nei, ég sá það með eigin augum, þeir komu gangandi hingað, festust í vef okkar og nú eru þeir allt í einu dauðir. Þetta er eitthvað undarlegt," sagði sú þriðja aftur.
"Frá með ykkur!" heyrðist allt í einu dimm og þó hvell rödd hvæsa og kóngulærnar hlupu allar út í alla enda kóngulóarvefjarins. Uppvakningarnir litu upp og sáu Rámu sjálfa koma gangandi hægt til þeirra. Hún skellti í góm, tafsaði með fótunum og starði á þá grimmu augnaráði. Hún stansaði rétt hjá þeim, potaði í einn uppvakninganna með annarri framklónni og þefaði af henni. Hún gretti sig, bakkaði lítið eitt og hélt áfram að stara á uppvakningana, sem störðu einfaldlega á móti.

Enginn sagði neitt í nokkurn tíma og kóngulærnar á endum vefjarins tóku að ókyrrast og tvístíga. Þær litu hver á aðra og vissu ekki nákvæmlega hvað þær ættu af sér að taka, þegar Ráma hóf aftur upp raust sína, leit á uppvakningana og sagði: "Gerið grein fyrir ferðum ykkar."
"Við komum að hitta þig í nafni kölska," sagði foringi uppvakninganna, er Þráður hét.
"Hvað vill kölski mér?" spurði Ráma hissa.
"Hann biður um greiða," svaraði Þráður.
Stutt þögn tók við á meðan Ráma beið eftir því að Þráður segði henni hver greiðinn ætti að vera. En þar sem hann starði bara á móti og sagði ekki neitt, gafst hún upp.
"... og hver er þessi greiði?"
"Hann biður um aðstoð þína."
Aftur kom stutt þögn.
"... sem er?" spurði Ráma.
"Hann biður um efni í blöndu sem hann er að búa til," svaraði Þráður.
"Hvernig blanda er það?"
"Hann hyggst búa til hinn fullkomlega illa hlut."
Þögn.
"Og hvaða efni vill hann frá mér?" spurði Ráma. Þessar þagnir voru farnar að fara í taugarnar á henni.
Löng þögn. Ráma var farin sjálf að ókyrrast og tvístíga og það jók enn á taugaóstyrkinn í hinum kóngulónum, sem vissu ekkert hvernig þær ættu að bregðast við þessum gestum sem hvorki var hægt að éta né tala við.
"Ég spurði hvaða efni hann vildi frá mér?" hvæsti hún enn hærra en áður og gat ekki leynt því að uppvakningarnir voru farnir að taka hana á taugum.
Þráður horfði rólegur á Rámu og sagði svo, "Við vorum að vonast til þess að þú gætir stungið upp á einhverju héðan úr skóginum. Og við vorum að vona að þú myndir ekki valda kölska vonbrigðum."
Nú var Ráma tekin að svitna lítillega og einn afturfóta hennar tók að skjálfa. Hún vonaði að enginn tæki eftir því. Hún reyndi að láta sér detta í hug eitthvað hráefni sem hún gæti boðið kölska í blönduna.

Áður en lengra er haldið er líklega rétt að taka örlítið hlé og spá í hvað er á seyði í samtali Rámu og Þráðs. Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir verður það ekki sagt um uppvakninga að þeir tali af sér. Þetta er mjög algeng samtalstækni meðal slíkra vera, en með því að halda ró sinni, tala aldrei að fyrra bragði, heldur hlusta og svara spurningum á eins stuttan hátt og kostur er leitast þeir við að ná yfirhöndinni í samtali sínu við aðrar verur. Eftir því sem vimælandinn verður óstyrkari talar hann nefnilega meira og missir jafnvel út úr sér hluti sem betur hefðu verið látnir ósagðir. Þessi hæfileiki uppvakninga hefur gert þá að afbragðs yfirheyrslusérfræðingum og eru einmitt margir slíkir starfandi í neðra (lengi vel var einnig talið að þeir gætu orðið prýðis sálfræðingar vegna hæfileikanna til að hlusta, en þar sem þeim hætti til að éta sjúklingana sína áttu þeir erfitt uppdráttar í þeirri grein). Eins og áður sagði eru uppvakningar fróðir um lífshætti kóngulóa. Vita þeir til dæmis fullvel að kóngulær eru alla jafna frekar yfirborðskenndar og örar verur og það útskýrir þessa samtalstækni við Rámu. Kóngulær verða fljótt taugaóstyrkar ef eitthvað þróast ekki nákvæmlega eins og þær hefðu viljað og vita jafnvel ekkert hvað til bragðs á að taka ef aðstæður eru mjög frábrugðnar þeirra hugmyndum. Þetta á ekkert síður við svona stórar og grimmar kóngulær eins og þær sem bjuggu í skóginum. Þetta er ástæða þagnartækninnar í samtali Þráðs við Rámu. En þetta var útúrdúr, áfram með söguna.

Ráma hugsaði sig um, lét augun reika og reyndi að horfa í einhverja aðra átt en að Þráði og hinum uppvakningunum. Helst langaði hana til að hlaupa í burtu, en gat það ekki því þá myndi hún tapa virðingu hinna kóngulónna. Rosalega fór þessi uppvakningur í taugarnar á henni. Af hverju þurfti hann að koma hingað í ríki hennar? Hún reyndi að bægja öllum þessum hugsunum frá og hugsa um eitthvað hráefni, en ekkert gekk. Lítil kónguló, sem stóð aftarlega í rjóðrinu, steig fram og hvíslaði til Rámu, "Segðu honum frá Lífvana trénu."
"Hvernig dirfist þú að ávarpa mig fyrir framan gestina án þess að þéra mig," þrumaði Ráma, reis upp á afturfæturna og nánast hjó litlu kóngulóna í tvennt í einu höggi. "Ég skal láta ykkur vita það að ég segi þessum gestum það sem ég vil segja þeim og annað ekki. Ef einhver efast um það fær sú hin sama sömu örlög og þessi litla ræfilstuska hérna." Hinar kóngulærnar bökkuðu ósjálfrátt og skulfu frá hvirfli til ilja. Ráma sneri sér síðan að uppvakningunum.

"Ég hafði nú ekki hugsað mér að segja ykkur frá Lífvana trénu," laug hún og vonaði að uppvakningarnir sæu ekki í gegnum hana. Sú von var til lítils því þó uppvakningarnir sæu lítið dimmum skóginum sáu þeir allir að hún var að skrökva, enda eru þeir prýðilegir yfirheyrslutæknar eins og áður hefur komið fram.
"Segðu okkur það samt," sagði Þráður og leit svo hvasst á Rámu að hún gat ekki annað en litið undan.
"Já, auðvitað," sagði hún, "það þýðir hvort eð er ekkert að leyna því þar sem þessi vitleysingur kjaftaði frá leyndarmálinu. En ég vil að þið skilið til kölska að það var ég sem vísaði ykkur á tréð," sagði hún.
Enn tók við löng þögn og enn varð Ráma taugaóstyrk. "Þið skilið þessu til kölska, er það ekki?"
"Jú," svaraði Þráður.
Ráma lét sér það vel líka og hóf mál sitt.

"Ekki langt héðan, en dýpra inn í skóginum er svolítið rjóður. Það er erfitt að komast að þessu rjóðri, því bæði þarf að fara í gegnum þetta litríka dýraflóru, eins og þið eruð þegar búnir að gera, en einnig þarf að brjóta sér leið í gegnum þykkar greinaflækjur og skítugar mýrar. Þetta rjóður er samt nokkuð auðfinnanlegt; hið eina sem þið þurfið að gera er að velja alltaf þykkustu greinaflækjuna og dýpstu mýrina til að fara yfir og á endanum munið þið koma að rjóðrinu. Þetta rjóður er ekki líkt neinu öðru rjóðri í heiminum. Það er eins og allt líf stöðvist þegar inn í það er komið - og satt að segja hef ég aldrei vitað til þess að nokkur sem þangað inn hafi farið hafi komist út aftur. Þar inni er enginn gróður, ekkert vatn og ekkert dýralíf - aðeins dauð og þurr mold og ryk - nema hvað í miðju rjóðrinu er stórt tré. Í fyrstu virðist þetta tré vera gjörsamlega dautt. Það ber engin lauf, þurr börkurinn loðir við stofninn eins og af gömlum vana og rætur þess eru skrælnaðar. Það er vegna alls þessa dauða sem þetta er kallað Lífvana tréð," sagði Ráma og reyndi að vera dramatísk. Uppvakningarnir störðu hins vegar á hana tómum augum svo hún leit undan og hélt áfram.

"Í stofni þessa trés er hola, ekki mikið stærri en íkornahola. Þessi hola leiðir inn í tréð og með því að teygja handlegginn inn ætti að vera hægt að ná í handfylli af innviðum trésins. Ég segi að það "ætti" að vera hægt, því ég veit ekki til þess að það hafi nokkurn tímann verið reynt. En takist ykkur að krækja þannig í efnið sem þar er, þá ætti sú sending að gleðja kölska mikið. Í einni handfylli eru öll þau efni sem gera skóginn hættulegan og fráhrindandi - þar er límið í vef kóngulónna, leirinn sem finnst undir stærsta steininum, eitrið á húð froskanna í trjánum og húð víunnar sem flugurnar verpa í sár annarra dýra. Þetta efni skuluð þið ná í og færa kölska með kveðju frá mér."

Uppvakningarnir kinkuðu kolli til samþykkis, Ráma lét kóngulærnar losa þá úr vefnum og hún varð þeirri stund fegnust þegar þeir röltu af stað í átt að rjóðrinu sem hún hafði lýst. Um leið og uppvakningarnir voru komnir í hvarf drap hún nokkrar af minnstu kóngulónum til að undirstrika að hún væri aftur komin með völdin í skóginum á meðan hún bölvaði sjálfri sér í hljóði fyrir að hafa ekki tekið betur á málinu en þetta.

Af uppvakningunum er það síðan að segja að ferð þeirra í rjóðrið reyndist vera mun auðveldari en Ráma hafði lýst. Uppvakningar eru nefnilega þannig gerðir að þeir láta engar hindranir standa í vegi fyrir sér, ef þeir eru á annað borð ákveðnir að komast eitthvað. Þar er auðvitað gagnlegur sá eiginleiki þeirra að finna ekki til, því þeir geta auðveldlega troðið sér í gegnum hindranir og troðninga án þess að þurfa að hugsa um sjálfa sig. Voru þeir því tiltölulega fljótir að finna rjóðrið. Í ljós kom að lýsingar Rámu höfðu verið nokkuð nákvæmar, jafnvel allt niður í smæstu smáatriði og því reyndist auðvelt að finna það. Lýsingar Rámu á innviðum rjóðursins voru líka mjög nákvæmar. Það voru engar ýkjur hjá henni að það væri eins og líf kæmist ekki þangað inn. Ekki bærðist neitt í rjóðrinu, allt var dautt og hljótt og það var jafnvel eins og ekkert veður væri inni í því - bara einhver undarleg lognmolla. Uppvakningarnir litu hver á annan, kinkuðu svo kolli og gengu inn í rjóðrið. Einhver undarleg kyrrð leið yfir þá og í fyrsta sinn í langan langan tíma fannst þeim eins og þeir væru komnir eitthvert þar sem þeir ættu heima. Það fannst þeim sjálfum vissulega rökrétt - hvar ættu uppvakningar að eiga heima annars staðar en á stað þar sem dauðinn ræður ríkjum? Í nokkur augnablik hvarflaði að sumum þeirra að verða eftir í rjóðrinu, en þeir vissu að síkt myndi ekki borga sig. Kölska var ekki vel við liðhlaupa og þeir vissu að þess háttar ákvörðun gæti orðið þeim dýrkeypt. Þeir kinkuðu því allir kolli hver til annars og Þráður stakk höndinni inn í holuna á trénu.

Hann náði að teygja sig í eitthvað undarlegt efni sem þar var og dró höndina út. Hvað sem þetta var, þá var það vissulega ógeðfellt. Þetta líktist helst einhverjum grásvörtum, límkenndum og illa lyktandi bráðnum osti sem lá eins og slytti í lófa Þráðs og lak niður á milli fingra hans. Þráður flýtti sér að setja efnið í poka sem uppvakningarnir höfðu haft meðferðis, stakk honum innan á sig, kinkaði kolli til hinna uppvakninganna og einn af öðrum gengu þeir út úr rjóðrinu.

Þegar heim var komið beið kölski spenntari en nokkru sinni fyrr við suðupottinn sinn.
"Þið voruð lengi að þessu," urraði hann á uppvakningana þegar þeir komu.
"Já," svaraði Þráður. Hann vogaði sér hins vegar ekki að beita þagnartækninni á kölska, heldur teygði hann sig í innanávasann á jakka sínum, náði þar í pokann með efninu innan úr Lífvana trénu og rétti myrkrahöfðingjanum.
"Gjörðu svo vel, þetta kemur með kveðju frá kóngulónni Rámu," sagði hann.
Kölski opnaði pokann og glennti upp augun þegar hann sá hvað í honum var. Svo færðist glott yfir andlit hans.
"Þið stóðuð ykkur vel," sagði hann. "Allir hóparnir stóðu sig vel og nú ættum við að geta soðið saman hlut sem tekur öllu öðru fram í illsku og vélabrögðum. Sköpunin fer fram á morgun. Náið í Daupni, Öðun, Lunda og Rámu og við skulum hefja suðuna."

Svo settist hann í hásæti sitt og starði á suðupottinn. Hann tók að glotta og innan skamms brast hann í skellihlátur um leið og hann neri saman höndunum af tilhlökkun.


IV - Uppvakningarnir og kóngulærnar í vestri

Uppvakningarnir fóru í vesturátt og ferðuðust allt þar til þeir komu í frumskóginn, þar sem kóngulærnar og skordýrin áttu búsetu. Reyndar væri líklega réttara að segja sem svo að þessi kvikindi réðu þar ríkjum, því fjöldi þeirra á þessu svæði var gjörsamlega kæfandi. Ekki var hægt að stíga niður fæti án þess að aragrúi bjallna, kakkalakka og maura hlypu upp á hann og gerðu tilraun til að skríða upp undir buxnaskálmar eða lendaskýlur. Hvarvetna mátti sjá alls kyns lirfur, flugur, engisprettur og þúsundfætlur gægjast undan rótum og runnum, sitja makindarlega á trjástofnum eða flögra um nálægt laufblöðum og krónum. Og bæri óvæntan gest að garði skoðuðu öll skordýrin hann með óblandinni forvitni áður en þau stukku á hann til að kanna hann aðeins betur. Nei, skógarnir í vestri voru svo sannarlega ekki kræsilegur staður fyrir þá sem ekki voru skordýr.

Eftir því sem innar dró í skóginn gerðist hann síðan enn ógirnilegri, því bæði þykknaði hann og gerðist dimmari, en jafnframt stækkuðu skordýrin og gerðust æ árásargjarnari. Og innst í dimmustu viðjum hans bjuggu kóngulærnar. Þangað hætti sér enginn heilvita maður, enda voru þeir ekki margir sem komist höfðu í ríki kóngulónna og lifað til að segja frá því. Þær fóru yfirleitt ekki í manngreinarálit og rifu flesta þá í sig sem álpuðust inn í ríki þeirra. Höfðu þær t.d. margsinnis drepið sendiboða sem komið höfðu þangað með mikilvæg skilaboð til þeirra frá öðrum stöðum - jafnvel þótt þær hefðu áður lofað griðum mjög hátíðlega. Það var samt ekki beint það að þær væru vísvitandi að svíkja þau loforð, heldur eru kóngulær einfaldlega svo skeikular að þær gleyma jafnan öllum loforðum mjög fljótt. Þær eru því ekki sérlega vinsæll dýraflokkur. Kóngulærnar í skóginum nutu síðan sérlega lítils álits meðal almennings, því þær þóttu afar ófrýnilegar og grimmar skepnur - meira að segja á mælikvarða kóngulóa. Flestar voru þær gríðarstórar og kolsvartar, með stóran kúlulaga búk og kafloðna fætur sem á voru svo oddhvassir og sterkir gripfálmarar að þeir minntu meira á oddhvassa kjöthnífa heldur en kóngulóafætur.

Kóngulærnar í skóginum eru óvenjuleg tegund að því leyti að þær raða sér nokkurn veginn sjálfkrafa í þrep virðingarstigans, án þess að berjast á nokkurn hátt fyrir stöðu sinni í samfélaginu. Það hefur að vissu leyti með stærð að gera, því kóngulóm finnst ekkert sjálfsagðara og rökréttara en að bera virðingu fyrir þeim sem stærri eru og feitari á búkinn. Einnig skiptir litur búksins máli, en því svartari sem hann er og því meira gljáandi, því meiri virðingu nýtur eigandi hans innan ættbálksins. Í skógunum í vestri var ein kónguló sem allar hinar báru óttablandna virðingu fyrir. Sú hét Ráma og hafði verið konungur frumskógarins svo lengi sem elstu skepnur mundu. Hún stjórnaði skógunum af mikilli harðneskju og vílaði jafnvel ekki fyrir sér að drepa eigin fjölskyldumeðlimi ef henni fannst þess þurfa. Hún var sérlega fláráð í öllu sínu atferli og það var t.d. vel þekkt staðreynd innan frumskógarins, að ef einhver ungu kóngulónna þótti svo efnileg að atgervi og stækkaði svo hratt að sýnt þótti að hún myndi ógna veldi Rámu, og jafnvel steypa henni af stóli, þá hikaði hún ekki við að slátra þeirri kónguló og sjúga allt innvolsið úr henni fyrir framan hinar kóngulærnar, þeim til viðvörunar um að reyna ekki að verða stærri en hún.

Þegar þessar staðreyndir eru ígrundaðar kann það að virðast óðs manns æði hjá hópi uppvakninga að gera sér ferð inn í skóginn til að tala við þetta fláráða kvikindi. Eðlilegt er að spyrja sig þeirrar spurningar hvers konar hóp brjálæðinga þarf til að fara í jafn hættulega ferð og þessa og í framhaldi af því er auðvelt að færa rök fyrir því að uppvakningar séu greinilega heimskir og fáfróðir upp til hópa. En það er reyndar ekki rétt. Uppvakningar eru hvorki heimskir né fáfróðir, heldur þvert á móti afar snjallir og úrræðagóðir. Þeir eru hins vegar sennilega misskildasta og vanmetnasta tegund sem til er. Líklega eiga fjölmiðlar og kvikmyndaframleiðendur mikla sök á þessum misskilningi, því í þeim myndum sem uppvakningar koma fram eru þeir jafnan túlkaðir sem hægfara, slefandi og drafandi skrímsli sem ráfa um í óvissu og leita að heilum til að éta, þar sem þeir eru ekki með heila sjálfir. Þetta gæti ekki verið fjarri sanni. Uppvakningar eru ósköp eðlilegir í allri hegðan; þeir geta hreyft sig jafnhratt og lifandi verur, talandi þeirra er ekki síðri en hjá þokkalega menntuðum manni og þeir eru ekkert sérstaklega að reyna að éta heila til að bæta upp fyrir eigin heilaleysi. Eina ástæðan fyrir heilaátinu er sú að þeim þykir hann einfaldlega bestur. Í sjálfu sér er því nánast enginn munur á þeim og lifandi fólki, nema hvað uppvakningar eru dauðir og rotnir á meðan lifandi fólk er ennþá ferskt.

Þessar útskýringar hjálpa okkur ekkert til að skilja af hverju hópi uppvakninga dettur í hug að leggja í þessa hættuför, að því er virðist án þess að óttast afleiðingarnar. Þvert á móti vekja þær upp spurningar um hvernig hópi svona snjallra vera dettur eiginlega í hug að fara inn í skóginn. Hvað gætu þær mögulega haft í pokahorninu? Það átti eftir að koma í ljós síðar.

Það fór ekki fram hjá skordýrunum í skóginum þegar stór hópur uppvakninga gerði sér leið í gegnum hann og þrammaði rakleitt í átt að ríki kóngulónna. Það var eins og lífið í skóginum tæki sér hlé, varla heyrðist suð né klór á meðan milljónir augna fylgdu hersingunni eftir þar sem hún gekk óhikað lengra og lengra inn í skóginn. Hið eina sem heyrðist var þegar fætur uppvakninganna námu við jörðu, svo skrjáfaði í sölnuðum laufblöðum, brakaði í einstaka trjágrein og skvampaði í drullusvöðum. Það var eins og skordýrin skynjuðu að uppvakningarnir voru ekki vitund hræddir við þau og þess vegna brast þeim sjálfum kjarkur að stökkva á þá, rannsaka eða bíta. Uppvakningarnir virtu sjálfir pöddurnar algerlega að vettugi og héldu áfram göngu sinni, dýpra og dýpra inn í skóginn. Skógurinn varð sífellt dimmari og að lokum voru þeir komnir svo djúpt inn í hann að þeir sáu varla handa sinna skil. Ekki bætti úr skák að uppvakningar sjá ekkert sérlega vel og því má segja að þeir hafi anað inn í blinduna. Þeir tóku þess vegna ekkert eftir því að þeir stefndu beint inn í risastóran kóngulóarvef sem Ráma hafði látið spinna og strengja upp, sérstaklega fyrir þá. Og hvort sem þeir voru svona grandalausir, eða hvort þeir áttu svona fullt í fangi með að reyna að sjá fram fyrir sig, þá tóku þeir ekki neitt eftir neinu fyrr en límkennd áferð kóngulóarvefjarins var búinn að umlykja þá alla svo þeir sátu blýfastir.

Þar sem þeir sátu þarna fastir og reyndu að píra augun í gegnum myrkrið á hvern annan fundu þeir skyndilega hvernig var eins og kippt væri í vefinn; tilfinningin var ekki ósvipuð því að einhver stígi á fjaðurdýnu sem maður liggur á. Þessum kippum fjölgaði og komu úr öllum áttum. Það var greinilegt að kóngulærnar voru að koma sér fyrir á vefnum og umkringja bráðina. Uppvakningarnir heyrðu þær greinilega hvíslast á um hver ætti að fá að éta hvern á milli þess sem þær smelltu í góm af einskærri tilhlökkun yfir því að fá að gæða sér á þeim. Og rétt áður en þær réðust til atlögu náði einn sólargeisli fyrir tilviljun að þræða sig gegnum laufþykknið fyrir ofan og skína ofan í rjóðrið þar sem þeir voru. Þó þetta væri aðeins lítill geisli var eins og kveikt hefði verið á fljóðljósum. Uppvakningarnir litu í kringum sig og sáu að tugir risavaxinna kóngulóa höfðu umkringt þá og biðu átekta í árásarstellingum eftir því að fá að ráðast á þá. Í miðjum hópnum var kónguló sem var helmingi stærri en allar hinar og þar sem greinilegt var að allar hinar kóngulærnar lutu henni, þá ályktuðu uppvakningarnir strax að þetta væri sjálf Ráma.
En áður en þeir gátu nokkuð yrt á hana, eða gert nokkuð annað til að verja sig, þá hvarf ljósgeislinn eins skyndilega úr rjóðrinu og hann hafði birst. Og á nákvæmlega þeirri stundu heyrðu þeir Rámu hrópa, "Á þá!" og um leið byrjaði vefurinn að hristast ofsalega. Uppvakningarnir heyrðu fótatakið og hvæsið í kóngulónum nálgast óðfluga þegar þær hlupu hver yfir aðra þvera í áttina að þeim, áfjáðar í að tryggja sér sem stærstan bita af bráðinni.

Framhald.


Ég hafði hugsað mér að segja ekkert á þessu bloggi annað en litlu söguna mína fram yfir helgi. En ég verð að hætta við það til að skjóta þessu að: Í gær komst einhver inn á bloggið mitt með því að slá inn leitarorðin "Pamela" og "Dallas". Það gerist ekki betra.



15.10.04

III - Drýslarnir í frostauðninni

Eftir þónokkrar bollalengingar afréðu drýslarnir að fara í norður og inn í frosnu auðnina sem þar var. Sú ákvörðun var kannski undarleg í ljósi þess að drýslum er sérlega illa við kulda og hata frost og ís meira en flest annað. En þegar litið er til eðlis drýsla verður ástæðan kannski eilítið ljósari.

Það er vel þekkt staðreynd að drýslar eru óvinsælli en allar aðrar óvættir; það væru ekki ýkjur að segja að þeir væru óvenju hataðir - meira að segja á mælikvarða demóna og annarra ára. Ástæðan er einfaldlega sú að ofan á afskaplega ógeðfellt útlit eru þeir sérlega viðskotaillir og geðvondir, auk þess sem þeir eru ákaflega hrekkjóttir og kvikindislegir. Að öðru leyti verður um drýsla sagt að í eðli sínu eru þeir í hrópandi ósamræmi við sjálfa sig; þrátt fyrir að vera afar félagslynd tegund geta þeir engan veginn fengið sjálfa sig til að fúnkera í hóp. Þá gildir einu hvort um er að ræða hóp drýsla eða annarra óvætta - þeir eiga afskaplega erfitt með að vinna saman án þess að rífast og slást og þeim er lífsins ómögulegt að láta sér lynda við aðrar skepnur. Þegar drýsill er í hópi einhvers staðar er aldrei langt að bíða þess að hann verði búinn að skapa alls kyns vandræði með hrekkjabrögðum sínum, geðvonsku og frekjugangi. Þeir sem þekkja ekki til gætu því ályktað að drýsill væri í eðli sínu einfari. Það gæti hins vegar ekki verið fjarri sanni, því þrátt fyrir að vera seinþreyttir til hinna ýmsu vandræða þurfa drýslarnir á félagsskap að halda og þeir geta alls ekki verið einir með sjálfum sér. Drýslar hafa nefnilega djúpstæða þörf fyrir að angra alla í kringum sig og hafi þeir engan til að atast í þurfa þeir að skeyta skapinu á sjálfum sér, oft með hrikalegum afleiðingum. Vitað er að drýslar eiga það til að fara í hörkurifrildi við sjálfa sig og mörg dæmi eru um að drýsill hafi gengið svo rækilega í skrokk á sér að hann hafi verið óþekkjanlegur á eftir. Í sjálfu sér hefur það ekkert orsakað nein sorgarviðbrögð hjá öðrum verum, eða eins og hið fornkveðna segir: “Betri er einn drýsill í gröf en tveir í garði.” En þessu fylgir hins vegar töluverður sóðagangur sem hvimleitt er að þrífa upp.

Ofan á þessa óvinsælu hegðunarbresti eru drýslar sérlega ókræsilegir í útliti, eins og áður hefur komið fram. Þeir eru flestir fremur litlir vexti og frekar mjóir og renglulegir. Þeir eru yfirleitt svartir eða gráir á litinn (enda kallast þeir “svartálfar” í mörgum löndum) og ákaflega ófríðir í andlitum svo ekki sé meira sagt, neflangir og yggldir á brún, opinmynntir og með röð skítugra vígtanna í báðum gómum. Svo bætir ekki úr skák að þeir eru síglottandi og slefandi, sem gerir það að verkum að þeir eru fráhrindandi með afbrigðum.

Þegar maður er jafn óvinsæll og drýsill er afskaplega erfitt að fá aðrar óvættir til að hjálpa sér, jafnvel þó maður sé í sendiför fyrir kölska. Það er t.d. vel þekkt staðreynd að bæði Daupnir og Öðunn hata drýsla meira en nokkuð annað kvikindi í heiminum og hika ekki við að slátra þeim við fyrsta tækifæri án þess að gefa þeim nokkuð færi á að útskýra mál sitt. Það var því ljóst að ekki gátu þeir farið í austur né suður. Það var líka vafamál hvort þeir ættu að treysta sér vestur í frumskóginn, í ríki kóngulónna og skordýranna, því þó kóngulóm sé almennt ekkert verr við drýsla en önnur kvikindi þá eru þær voðalega mislyndar og hverfular í skapi og gæti allt eins dottið það í hug að rífa þá í sig án nokkurrar sjáanlegrar ástæðu. Drýslunum var því nauðugur sá kostur að bíta á jaxlinn og halda í kuldann, þar sem draugarnir dansa til eilífðar.

Í stuttu máli verður það sagt að ferð drýslanna norður í frostið var þeim afskaplega erfið og róstursöm, enda kannski ekki við því að búast að drýslahópur geti haldið friðinn mjög lengi í einu. Þeir rifust og slógust allan tímann og það var því blóðugur og brákaður hópur sem náði loks inn í land íssins og hitti sjálfan konung drauganna, sem Lundi var nefndur.

Lundi líktist nafna sínum úr fuglaríkinu nákvæmlega ekki neitt, heldur var hann grimmur og illskeyttur hrekkjadraugur sem stýrði ísauðninni af miskunnarlausri hörku. Reyndar leit hann í fyrstu ekkert sérlega út fyrir að vera illskeyttur í hegðan, heldur var satt að segja virðulegur í allri framkomu. Í lifanda lífi hafði Lundi verið konungur, sem stýrði ríki sínu af fádæma góðmennsku og greiðvikni í garð allra þegna sinna. Hann hafði því státað af nokkrum vinsældum og menn litu til hans sem sanngjarna foringjans sem elskaði þegna sína eins og þeir væru hans eigin fjölskylda. Og víst elskaði hann fjölskyldu sína meira en allt annað, var drottningu sinni trúr og ól upp með henni þrjú börn, eina dóttur og tvo syni, sem hann dekraði á alla lund. Það átti hins vegar því miður eftir að koma í ljós að sjaldan launar kálfur ofeldið og var Lundi stunginn í bakið af báðum sonum sínum, þegar þeir skipulögðu og stýrðu uppreisn gegn valdi föður síns og móður, réðust með her manna á þau, steyptu þeim af stóli og létu myrða á hrottalegan hátt. Valdarán sonanna varð Lunda svo mikið áfall að andi hans neitaði að yfirgefa þennan heim, þó hann væri sloppinn úr líkamanum. Þess í stað hefndi hann sín grimmilega á sonum sínum og herjum þeirra áður en hann fór í sjálfskipaða útlegð norður í frostið. Þar lifði hann á því að sjúga andann úr hverjum þeim ferðalangi sem villtist yfir í auðnina. Við hvert einasta morð sem hann framdi hvarf alltaf lítið brot af þeirri hlýju sem einu sinni hafði verið í sál hans og nú var svo komið að þarna inni var ekkert annað en frostharka og grimmd. Og þó hann gæti komið fram sem hið mesta séntilmenni hikaði hann ekki við að ráðast á hvern þann sem honum datt í hug og sjúga úr honum lífið.

Þegar hann sá hins vegar hóp drýsla koma askvaðandi inn í ríki hans gat hann ekki að því gert að staldra aðeins við og athuga hverju þetta sætti. Lundi vissi vel að drýslar þola illa frost og ályktaði því að þeir hlytu að eiga við hann sérstakt erindi. Hann ákvað því að skjótast til þeirra. Drýslarnir tóku ekki neitt eftir neinu, fyrr en hann hafði allt í einu birst frammi fyrir þeim og góndi á þá ísköldum augum.
"Hvað viljið þið mér?" þrumaði hann yfir þá.
"Heill sértu, Lundi," skrækti foringi drýslanna og gerði ámátlega tilraun til að hneigja sig. Hann hvæsti síðan á hina drýslana í hópnum til að gera slíkt hið sama, sem þeir reyndar gerðu, þó þeir bölvuðu, rögnuðu og frussuðu hver yfir annan þveran í leiðinni.
"Ég spurði spurði hvað þið vilduð," þrumaði hann enn hærra en áður, svo allir drýslarnir hrukku í kút.
"Við komum hingað í sendiför frá kölska," flýtti drýslaforinginn sér að segja, "en hann leitar aðstoðar þinnar í ákveðnu máli."
"Nú?" spurði Lundi og forvitni hans var greinilega vakin. "Hvaða mál er það?"
Drýslaforinginn útskýrði áætlanir kölska í stuttu máli og spurði Lunda síðan hvort hann lumaði á einhverju hráefni í suðuna. Lundi hugsaði sig um nokkra stund, en síðan var líkt og örlítið bros færðist yfir frosið andlitið.
"Ég er ekki frá því að ég sé með rétta hráefnið handa ykkur," sagði hann svo, "en vita megið þið að um er að ræða hlut sem mér er mjög dýrmætur. Dokið við á meðan ég næ í hann."
Lundi hvarf eins skjótt og hann hafði áður birst og á meðan stóðu drýslarnir í hnapp, litu hver á annan hvæsandi og skrækjandi og veltu fyrir sér hvaða hlutur þetta gæti verið.
"Þetta er örugglega eitthvað illa lyktandi og úldið ógeð," nöldraði einn þeirra og gretti sig.
"Vertu ekki svona mikið fífl," krunkaði annar á móti, "hér í frostinu getur ekkert úldnað, þetta er örugglega eitthvað vopn."
"Þú getur sjálfur verið fífl," skrækti sá fyrsti aftur.
Óðara voru drýslarnir farnir að fljúgast á, fyrst tveir og svo fleiri og innan skamms var allur hópurinn kominn á kaf í hörkuslagsmál. Það var ekki fyrr en Lundi birtist aftur með háum hvelli sem látunum linnti. Drýslarnir stóðu allir upp, þurrkuðu mesta blóðið framan úr sér og störðu á drauginn sem hélt á einhverju sem leit helst út fyrir að vera grár en jafnframt gegnsær strigapoki.

"Þetta hérna," sagði Lundi og lyfti pokanum, "er framlag mitt í blönduna."
"Hvað er þetta?" spurði drýslaforinginn og pírði augun á gjöf Lunda.
Lundi horfði á hann um stund áður en hann tók til máls. "Einu sinni var ég lifandi og stýrði konungsríki fjarri þessari kuldaauðn. Þá var andi minn inni í líkama sem ég gat hreyft nokkurn veginn að vild. Ég gat notað þennan líkama til að tjá mig við fjölskyldu mína, vini og þjóna, ég gat notað hann til að ferðast um og til að veiða hirti í skóginum fyrir utan höllina."
"Þetta er mjög hjartnæm saga," greip drýslaforinginn fram í, "en hvaða hlutur er þetta?" Drýslar eru almennt ekki sérlega kurteisir og eiga afskaplega erfitt með að halda uppi þokkalega vönduðum samræðum.
"ÞÖGN!" þrumaði Lundi, "eða ég murka úr þér líftóruna á stundinni. Þú skalt ekki dirfast framar að grípa fram í fyrir mér."
Drýslaforinginn hálflyppaðist niður, en sagði ekki neitt.
"Eins og ég sagði þá gat ég notað líkama minn til að hreyfa mig á meðan ég var enn á lífi, en um leið og ég dó varð líkami minn gagnslaus þúst. Andi minn lifði hins vegar enn. Það var ekki fyrr en ég tók þá ákvörðun að myrða syni mína og heri þeirra sem andi minn dó og ég varð að því sem ég er í dag. Drýslar mínir, ég færi ykkur anda minn. Færið hann til kölska með kveðju frá mér," sagði Lundi kuldalega og rétti þeim andann.
"Eru þetta öll merkilegheitin?" hnussaði drýslaforinginn.
"Gerir þú lítið úr gjöf minni?" hvæsti Lundi. "Heimsku þinni er engin takmörk sett. Gerðu þér grein fyrir því að ég er að færa þér anda sem ekki aðeins missti líkama sinn, heldur dó síðan sjálfur. Ég er að færa ykkur dauðann í sinni hreinustu mynd."

Drýslaforinginn tók við andanum og bjóst til heimferðar, þegar Lundi kallaði aftur á hann.
"Mig langar til að biðja ykkur um að færa kölska aðra gjöf frá mér," sagði hann, tók miða upp úr fórum sínum, páraði eitthvað á hann og rétti drýslinum. "Afhentu kölska þetta, en ekki lesa sjálfur á miðann því þá finn ég þig og geri útaf við þig."
Drýslaforinginn tók miðann og nú hélt öll hersingin heim þar sem kölski beið við pottinn.
"Ertu með eitthvað gott handa mér?" spurði hann drýslaforingjann.
"Já," svaraði hann og dró andann upp úr pússi sínu. "Lundi sendi okkur sjálfan dauðann með kærri kveðju," sagði hann um leið og hann rétti kölska gráan binginn. Kölski glotti út að eyrum þegar hann sá gjöfina og minnti drýslana á að nú yrði að bjóða Lunda til veislunnar þegar hluturinn yrði búinn til. Drýslaforinginn dró þá upp úr vasanum miðann sem Lundi hafði skrifað á.
"Hann sendi þessi skilaboð líka," sagði hann og rétti kölska. Kölski tók miðann, las á hann og rak upp illyrmislegan skellihlátur áður en hann rétti foringjanum miðann. Þar stóð: Þú veist, kölski, að það getur verið gott að skoða sitt nánasta umhverfi. Þú sendir alls kyns kvikindi út af örkinni til að finna hráefni sem er nógu ógeðfellt til að það geti passað í blöndu illskunnar. En hvað með hráefnið sem þú ert með fyrir framan þig núna? Hvaða hráefni gæti mögulega verið ógeðfelldara en drýsill?

Drýslaforinginn áttaði sig, en það var orðið of seint. Hann var varla búinn að snúa sér við á staðnum þegar kölski slæmdi klónni í hann, hóf hann á loft og skellti honum í pottinn með hinum hráefnunum sem komin voru. Hann hló á meðan hinir drýslarnir ruddust út með hávaða og látum og gerði ekki nokkra tilraun til að ná í fleiri þeirra ofan í pottinn. Hann var allt of djúpt sokkinn í hugsanir sínar. "Hvað skyldu uppvakningarnir koma með handa mér?"

Það kemur í ljós næst.



14.10.04

Ég hef tekið þá ákvörðun að hætta að lofa næsta kafla úr framhaldssögunni á tilteknum tímum. Þegar loforðið kemur fram þá gerist annað hvort eða bæði af þessu tvennu:

1. Dagurinn í vinnunni verður óvenju erfiður og langur.
2. Ég kemst ekki í tölvuna fyrr en seint og um síðir.

Í kvöld gerðust báðir þessir atburðir og þar sem ég þarf enn að vakna snemma í fyrramálið hef ég ekki kraft til að stimpla inn næsta kafla núna. Biðst ég enn og aftur afsökunar á töfinni.

Að þessu öllu sögðu þá lofa ég því að henda inn kaflanum annað kvöld.



13.10.04

II - Púkarnir hitta Öðun og Leifasnigilinn

Púkarnir fóru í austur og upp í fjöllin, sem voru ríki Öðuns hins volduga. Öðunn þessi var, eins og Daupnir, ákaflega ógnvænlegur í útliti þó hann væri ekki nándar nærri eins ófrýnilegur. Faðir hans var mínótár og móðir hans var kentár og var hann sjálfur því sambland nauts, hests og manns. Hann var með nautshöfuð er á voru gríðarstór horn er risu oddhvöss nánast beint upp í loft. Líkami hans fyrir ofan mitti var nokkuð mennskur, nema hvað hann var gríðarlega vöðvastæltur og loðinn. Fyrir neðan mitti var hann síðan með afturenda hests; lendar, tagl og hófa.

Öðunn var almennt nokkuð vel liðinn innan undirheimanna. Þó hann væri hörkulegur í útliti var hann almennt kurteisin og almennilegheitin uppmáluð, ef vel var farið að honum. Hins vegar varð að passa sig á því að reita hann ekki til reiði, því hann var ákaflega skapstór og var afar stuttur í honum þráðurinn. Rynni á hann æðiskast eirði hann engri lifandi veru í nánasta umhverfi sínu, heldur stökk froðufellandi um og stangaði allt sem hann sá. Til voru margar sögur um æðisköst Öðuns og var til dæmis sú saga ákaflega fræg að hann hefði stangað sundur heilt fjall í einu æðiskastinu og hent einu brotinu úr því langt út í sjó. Þessa sögusögn þekktu allar undirheimaverur vel, þó enginn hefði nokkurn tímann fundist sem gat staðfest að hún væri sönn. Það var enda vel þekkt staðreynd að enginn sem varð vitni að þessum atburði lifði hann af. Að vísu þekktu allir árarnir einhvern sem hafði kannast við einhvern sem þekkti veruna er náði að skreiðast nær dauða en lífi frá hildarleiknum og sú hafði víst náð að lýsa æðiskasti Öðuns í nokkuð nákvæmum smáatriðum áður en hún gaf upp öndina. En þegar reynt var að ganga eftir því við árana hver það væri sem þeir þekktu þá varð yfirleitt fátt um svör. Þessi saga varð smám saman að þjóðsögu og þó þeir væru margir árarnir sem leyfðu sér að efast í góðra vina hópi um að hún væri sönn, þá var ekki til sú vera í undirheimum sem dirfðist að efast um hana upp í opið geðið á Öðni. Það vissu nefnilega allir að slíkar efasemdir gátu pirrað Öðun og sá sem gerði þau mistök að æsa hann upp gerði aldrei nein mistök framar.

Þrátt fyrir þessa skapbresti sína var Öðunn rómaður fyrir að vera hinn mesti ljúflingur ef honum var sýnd nægileg kurteisi og virðing að fyrra bragði. Lítið annað þurfti en að hrósa honum fyrir glæsilegt útlit eða dásama klettasali hans til að hann kæmist í prýðisgott skap og þá ljómaði hann í skapinu og var tilbúinn til að hjálpa á alla lund. Þetta vissu púkarnir og afréðu því að fara upp í fjöllin og hitta hann. Þessi ákvörðun þarf ekki að koma á óvart þeim sem þekkja lítillega til púka. Púkarnir eru nefnilega dálítið merkileg tegund undirheimavera. Í fyrstu geta þeir virst nokkuð hörkulegir í útliti og eiga því auðvelt með að skjóta viðkvæmu fólki skelk í bringu. Þeir eru reyndar ekkert sérlega háir í loftinu, en þeir eru kraftalega vaxnir, með langa og vöðvastælta handleggi og fótleggi og skarta nokkuð löngum klóm sem kjörnar eru til hvers kyns klifurs. Þeir eru yfirleitt sköllóttir, en sumir eru með eitt eða fleiri horn sem standa á mismunandi stöðum upp úr höfðum þeirra. Og síðast en ekki síst eru þeir með stutta, en ótrúlega sterka, vængi á bakinu - ekki ósvipaða leðurblökuvængjum, sem þeir geta notað til að taka hratt til flugs. Það merkilega við púka er hins vegar það að þrátt fyrir nokkuð ógnvekjandi útlit eru þeir óttalegar raggeitur sem geta sýnt fádæma viðbragðsflýti þegar kemur að því að flýja af hólmi. Það þarf því ekki að koma á óvart að eftir örlitla umhugsun fannst öllum púkunum það augljós kostur að hitta Öðun að máli, gera sér far um að vera kurteis við hann og sjá hvort það ætti ekki að duga til að komast lifandi (og vonandi ómeiddir, sögðu sumir þeirra skjálfandi röddu) frá þeirri sendiferð.

Þeim reyndist ekki erfitt viðfangsefni að finna híbýli Öðuns, enda eru þau mjög auðfundin þeim sem veit að hverju hann á að leita. Inngangurinn inn í helli Öðuns var í stærstu gjótunni í stærsta fjallgarðinum og býsna áberandi þegar nálægt var komið. Það var ekki laust við að púkarnir yrðu logandi hræddir þegar þeir fikruðu sig niður í sprunguna og litu í kringum sig. Annars var varla hægt að kalla þetta sprungu; það var engu líkara en að það vantaði hreinlega heilt fjall inn í fjallgarðinn. Þegar púkarnir skoðuðu verksummerkin betur gátu þeir ekki séð betur en að þarna væru komnar sönnur fyrir sögusögninni frægu um fjallið sem Öðun stangaði í burtu - það var engu líkara en að fjallið hefði verið brotið burt með einhverju undarlegu áhaldi, ekki ósvipuðu horni í laginu (reyndar má þess geta að þetta var rétt hjá púkunum, sögusögnin um Öðun er sönn. Hins vegar var hann ekkert að stanga fjallið í neinu æðiskasti, hann var bara að innrétta heima hjá sér, innsk. ritstj.). Þessar spekúleringar púkanna urðu til þess að hræðsla þeirra jókst um allan helming og ósjálfrátt færðu þeir sig hver að öðrum þar til þeir voru komnir í þéttan hóp. Þessi hópur hélt síðan áfram að ganga niður í sprunguna, röflandi, geltandi og vælandi af tómri hræðslu, þar sem hver steig á tærnar á öðrum og skalf á beinunum.

Tilviljanir eiga sér stað í undirheimunum, rétt eins og þær henda oft hjá okkur mannfólkinu. Nú vill svo til að Öðun var í fádæma vondu skapi þennan morgun og vildi ekki láta neinn trufla sig. Var hann jafnvel búinn að heita því að hver sá sem truflaði hann á næstu dögum skyldi klofinn í herðar niður eða hafa jafnvel enn verra af. Það er dálítið erfitt að útskýra ástæðu skapvonskunnar fyrir mannfólki, en bæði kentárar og mínótárar eiga auðvelt með að setja sig í spor Öðuns. Líkamar vera af þessum tegundum eru nefnilega þeim galla búnir að þeir eru ósamstæðir í endingu - meðalaldur manna er nálægt 70 árum á meðan meðalaldur bæði hesta og nauta er nær 20 árum. Það er því ekkert sem þessar verur hræðast meira en það að hests- eða nautslíkaminn deyi á undan mannslíkamanum með skelfilegum afleiðingum. Þessar áhyggjur verða þess valdandi að á nokkurra ára fresti fá þessar verur mikið geðvonsku- og svartsýniskast og taka skapvonskuna út á öllum nærstöddum. Öðun var einmitt í einu slíku kasti þegar púkana bar að garði og var því hræðsla þeirra - fyrir einskæra tilviljun - alls ekki tilefnislaus. En hitt er ekki síður merkileg tilviljun að það var einmitt þessi hræðsla sem átti eftir að bjarga lífum þeirra. Það er nefnilega óskaplega fyndin sjón að sjá hóp af hræddum púkum ferðast um í hnapp og þegar Öðun bar þá augum þar sem þeir skakklöppuðust niður í gilið til hans gat hann ekki að því gert, en reiðin rann samstundis og hann fór að skellihlæja.

Púkarnir urðu heldur en ekki fegnir þegar þeir sáu hann koma hlæjandi á móti sér, enda höfðu þeir gert sér allt hið versta í hugarlund. Foringi púkanna, stór og hyrndur garmur er kallaður var Skuggi, beit meira að segja á jaxlinn, steig fram og kastaði á Öðun eins kurteislegri kveðju og hann mögulega gat: "Komdu sæll, háæruverðugi konungur fjallanna. Okkur er reisn að því að fá að berja jafn mikinn höfðingja augum og þig og enn stoltari erum við af því að fá að stíga okkar óverðugu fótum inn í konungdæmi þitt. Vilt þú vera svo vænn að taka kveðju okkar og taka við kveðju frá kölska?" Eins og heyra má geta púkar verið afar kurteisir ef þeir leggja sig fram við það. Öðunn hló góðlega að kveðju púkanna og bauð þeim inn fyrir.
"Ekki fer ég að synja sendiboðum kölska inngöngu í mitt ríki," sagði hann.
"Þakka þér fyrir, mikli höfðingi," sagði Skuggi og hneigði sig. Hinir púkarnir flýttu sér að gera slíkt hið sama en í öllum æðibunugangnum skölluðu þeir hvern annan og féllu eins og hráviði á gólfið. Öðunn fór aftur að hlæja.
"Það er naumast virðingin sem mér er sýnd, að hér falla allir í gólfið til að sýna mér lotningu." Svo gerði hann stutt hlé á máli sínu, hláturinn minnkaði og varð að brosi. Þannig virti hann púkana fyrir sér dálitla stund, en pírði síðan augun á þá og bætti við: "Það kann mér vel að líka. Hvað get ég gert fyrir ykkur?"
Skuggi bar upp erindið við Öðun og sagði frá áætlun kölska um að búa til hinn fullkomlega illa hlut. Öðunn hlustaði nokkuð spenntur á frásögnina og var farinn að kinka ákafur kolli þegar henni lauk.
"Ég veit alveg hvaða hráefni ég get látið ykkur fá," sagði hann ákafur. "Það er meira að segja hægt að nálgast það tiltölulega skammt héðan."
"Takk fyrir það, kölski verður ánægður með það," svaraði Skuggi ánægður, en svo var eins og hann gerði sér grein fyrir einhverju og dálítill áhyggjusvipur færðist yfir hann. "En er nokkuð mjög hættulegt að ná í þetta hráefni?" spurði hann hikandi.
"Nei, ekki er það nú hættuleg ferð," svaraði Öðunn og hló. "Ekki hættuleg, en hún er þeim mun viðurstyggilegri." Púkarnir stundu, sumir fegnir en aðrir áhyggjufullir.

Öðunn fylgdi öllum púkunum út úr helli sínum og benti í áttina að stórum og vígalegum kletti sem gnæfði upp úr hæsta fjallinu í fjallgarðinum. "Þetta er Leifaklettur, en hann kallast svo vegna þess að þangað leita öll þau efni og allir þeir vökvar sem ekki hefur náð að nýta neins staðar annars staðar." Púkarnir horfðu allir sem einn á þennan klett sem stóð eins og kalt og brotið sverð upp úr fjallgarðinum. "Eins og þið kannski vitið," hélt Öðunn áfram, "er heimurinn drifinn áfram af hringrás. Vatnið sem rignir yfir okkur fer t.d. ofan í jörðina að hluta til, en annan hluta drekkum við og skilum því síðan af okkur í jörðina. Þetta vatn gufar síðan upp, áður en það rignir yfir okkur aftur og þannig er hringrásin fullkomnuð. Það sama má segja um moldina. Við byrjum á því að nota moldina til að gróðursetja grænmetið okkar og þegar það er orðið nógu þroskað tökum við það upp og borðum það. Grænmetið breytist síðan í saur inni í okkur, sem við skilum síðan í jörðina aftur þar sem hann breytist í mold og við notum til að rækta grænmeti. Þannig er sú hringrás fullkomnuð. Það sem gerist hins vegar stundum, er að sum efni detta út úr hringrásinni og komast ekki aftur inn."

Púkarnir litu hver á annan og hlustuðu svo áfram á frásögn Öðins. "Þau efni sem detta út úr hringrásinni eru ekkert annað en úrgangsefni, sem eru orðin svo gegnsýrð af alls kyns viðbjóði og ófögnuði að ekki er hægt að nýta þau lengur í náttúrunni. Þau eru orðin að úrgangi úrgangsins. Þau renna því enn dýpra í jörðina og renna að lokum inn í Leifaklettinn sem þið sjáið þarna. Langt, langt inni í klettinum hafa þessi efni safnast saman í stórt og mikið stöðuvatn sem er svo illa lyktandi og hræðilegt að fáir geta hafst við þarna inni. Þó er ein vera sem þarna á heima, en það er stór og mikill snigill sem lifir á úrgangnum sem þangað inn rennur. Leifasnigillinn er hann kallaður og þó hann geti ekki gert neinum neitt mein er hann afar óhugnanlegur viðkomu, enda uppfullur af þessum úrgangi úrgangsins. Þennan snigil skuluð þið taka í fangið og kreista eins fast og þið mögulega getið. Einhverjir verða síðan að vera tilbúnir með poka fyrir aftan hann til að taka við því sem út úr honum kemur við þessi átök. Þetta er mitt framlag í smíð hlutarins; ég býð ykkur úrganginn úr úrgangi úrgangsins og sendi um leið kæra kveðju til kölska."

Öðinn benti síðan púkunum í grófum dráttum á hvert þeir ættu að fara til að komast inn í klettinn, en sagði þeim annars að hafa engar áhyggjur. "Þið rennið á lyktina, trúið mér," sagði hann og hló hrossahlátri áður en hann rak þá af stað. Það er skemmst frá því að segja að púkarnir áttu ekki í miklum vandræðum með að finna hellismunnann inn í klettinn, enda stafaði frá honum allri þeirri óþverralykt sem þeir hefðu aldrei trúað að væri til. Það var hins vegar ekkert annað að gera en að bíta á jaxlinn og láta sig vaða inn, því ekki voru púkarnir tilbúnir til að takast á við reiði kölska fyrir misheppnaðan leiðangur.

Þegar inn í hellinn var komið tók á móti þeim svo megn fnykur að sumir þeirra voru næstum fallnir í öngvit. Sjálfur var hellurinn síðan þrunginn viðbjóði, gólfið og veggirnir voru þaktir illa lyktandi og torkennilega lituðu slími og eftir því sem neðar dró í hellinn magnaðist bæði slímið og lyktin. Hvað eftir annað þurftu púkarnir að hvetja hvern annan áfram til að komast alla leið. Að lokum komu þeir inn í stóran og víðáttumikinn skúta inni í hellinum. Þarna inni var svo mikið niðamyrkur, að meira að segja púkarnir, sem sjá afbragðs vel í myrkustu myrkrum, áttu erfitt með að greina hvað væri þarna inni. Það sást þó glitta í stöðuvatnið, en hið undarlega var (þó púkarnir ættu ekki eftir að átta sig á því fyrr en þeir löngu eftir að þeir væru komnir út, en lyktin svipti þá alla aðra skynjun á umhverfinu) að ekkert heyrðist í því. Vatnið gáraði ekki hið minnsta og þögnin var eins kæfandi og lyktin. Ekkert lífsmark var inni í hellinum að því er virtist. Púkarnir gengu af stað meðfram vatnsborðinu og þegar langt inn í hellinn var komið sáu þeir einhverja undarlega þúst hreyfast löturhægt meðfram einum veggnum. Þetta var snigillinn sem þeir voru að leita að. Eftir miklar bollaleggingar um hver ætti að taka að sér hvaða verk tóku fjórir sterkustu púkarnir utan um snigilinn á meðan tveir þeir sem minnstu virðinguna höfðu voru látnir halda poka undir afturenda hans. Ef þeim hafði fundist loftið ógeðfellt inni í hellinum áður en snigillinn var kreistur þá hefðir þú, lesandi góður, átt að finna hvernig það varð þegar kekkjótt gumsið skaust út úr honum og ofan í pokann. Púkarnir urðu að hafa sig alla við til að gefast ekki upp. Þeir svitnuðu og kúguðust og fengu tár í augun - og þegar púkar eru annars vegar er mikið sagt. Aldrei hafa nokkrir púkar í sögu undirheimanna verið jafnfegnir þegar þeir náðu að klára úrganginn úr sniglinum og binda fyrir pokann. Loksins gátu þeir snúið til baka úr hellinum. Þeir hálfhlupu hver í kapp við annan upp úr hellinum, runnu hvað eftir annað í slíminu, rákust saman, rákust í veggina, bölvuðu, vældu og görguðu af eintómu ógeði. Loksins komust þeir þó út undir bert loft og þegar þeir komust aðeins frá hellismunnanum köstuðu þeir sér niður, kúguðust, hræktu og skulfu á beinunum.

Þegar þeir höfðu jafnað sig nægilega mikið lögðu þeir af stað með pokann á bakinu og hittu kölska fyrir þar sem hann stóð enn við suðupottinn.
"Hvað eruð þið með handa mér?" spurði hann og glotti ógurlega.
"Þetta færum við þér með kveðju frá Öðni," sagði Skuggi, en hikaði síðan lítið eitt.
"Nú, hvað ertu með?" spurði kölski forvitinn.
"Ég er hér með úrganginn úr sniglinum sem borðar úrgang úrgangsins," sagði Skuggi og táraðist við tilhugsunina um hvernig þeir kreistu hann úr dýrinu. "Ég hika við að hella úr pokanum vegna þess viðbjóðar sem í honum er."
Kölski skipaði honum samt að hella úr pokanum í pottinn og Skuggi hlýddi. Aldrei í sögu helvítis hafði jafnmikill fnykur gosið upp og þegar pokinn var tæmdur í pottinn. Kölski flýtti sér að setja lokið á og saup hveljur um stund. Svo leið lymskuglott yfir andlit hans.

"Ekki er ykkar sending síðri en sú sem skrattarnir komu með," sagði hann svo. "Ef hinir hóparnir standa sig jafnvel og þeir tveir sem hingað til hafa komið er öruggt að hluturinn mun taka allri illsku fram," urraði hann glottandi.
"Við munum bjóða Öðni hingað til að vera viðstaddur sköpun hlutarins. Hann á ekkert minna skilið fyrir sitt framlag."
Púkarnir flugu hlæjandi í burtu á meðan kölski settist niður og skellihló af ánægju.

Á morgun kemur síðan í ljós hvernig drýslunum reiddi af.



11.10.04

Allt gjörsamlega snarvitlaust að gera í dag og er fyrst að komast í tölvuna núna. Er of þreyttur til að henda öðrum hluta inn á bloggið í kvöld, en lofa því annað kvöld í staðinn. Bið þær sjö hræður eða svo, sem eru að bíða eftir kaflanum, afsökunar.



10.10.04

Þessi færsla hjá mér verður mjög löng. Raunar er hún orðin svo löng að ég hef afráðið að hafa hana í fjórum hlutum og birta hana á næstu fjórum dögum. Boðskapur færslnanna birtist síðan eftir að sú fjórða er komin út. Þetta er semsagt viðvörun fyrir þá sem nenna ekki að lesa mjög langar færslur.

Einhvern tímann í fyrndinni fékk kölski þá hugmynd að skapa hinn fullkomlega illa hlut og koma honum fyrir í mannheimum. Hann hóaði því í nokkra áhrifamestu skrattana, púkana, drýslana og uppvakningana sem hann hafði á sínum snærum og skipaði hverjum þeirra að ná í eitthvert eitt það hráefni sem þeir teldu að gæti þjónað þessum tilgangi. Öllum óvættunum leist strax vel á ráðabruggið, glottu illyrmislega hverjar til annarra og fóru síðan hver í sína áttina til að finna viðeigandi hráefni.

I - Ferð skrattanna til Daupnis hins illa

Fyrst segir frá ferðum skrattanna, en þeir fóru í suður og inn í eyðimörkina, þar sem hinn viðskotailli Daupnir réði ríkjum. Sá var sérlega ófrýnilegur ásýndar, enda var hann afkvæmi sporðdreka og skröltorms og bar líkamseinkenni beggja tegunda. Hann var með búk skröltormsins, en í stað þess að hlykkjast um sandinn eins og aðrir snákar gekk hann um á átta fótum eins og sporðdreki. Framan á búknum voru fjórir armar sem hver skartaði öflugri kló. Höfuðið var snákshöfuð og aftan úr og yfir búknum hringaðist síðan hali með öflugum eiturbroddi, sem hann stakk miskunnarlaust í hverja þá þá bráð sem hann náði að klófesta. Daupnir var ekki síður ófrýnilegur í skapinu en hann var í útliti. Hann stjórnaði eyðimörkinni af mikilli hörku og hikaði ekki við að slátra ættingjum sínum úr ættum sporðdreka og skröltorma og rífa þá síðan í sig af mikilli græðgi ef honum fannst þeir ekki standa sig í stykkinu.

Skrattarnir hittu Daupni að máli í helli skrímslisins. Hann tók á móti þeim umkringdur snákum og sporðdrekum og spurði hverra erinda þeir kæmu í ríki hans. Skrattarnir sögðu honum frá áætlunum kölska og spurðu hvort ekki væri til eitthvað hráefni í eyðimörkinni sem erindi gæti átt í blönduna illu. Á meðan Daupnir hlustaði á mál þeirra glotti hann svo skein í gljáandi vígtennurnar og rak út úr sér tunguna af eintómri ánægju yfir hugmyndinni. Hann hugsaði sig aðeins um og sagði svo: "Nákvæmlega inni í miðju eyðimarkarinnar er djúp laut. Við köllum hana Sköpunarlautina, vegna þess að það er ofan í henni sem eyðimörkin varð til. Ofan í lautinni eru dagarnir svo heitir að járnið rennur eins og vatn og næturnar eru svo kaldar að andrúmsloftið frýs áður en hægt er að anda því að sér. Nákvæmlega ofan í miðju lautarinnar er stór teningslaga steinn. Úr fjarlægð virðist hann rennisléttur að sjá en í reynd er hann alsettur hvössum nibbum og skörðóttum brúnum. Utan á honum er torkennilegur slímgróður sem verður hvorki fyrir áhrifum dagshitans né næturkuldans, heldur er alltaf sleipur viðkomu. Nákvæmlega ofan á miðjum steininum er lítil hola, rétt nógu stór til að hægt sé að troða einni hönd ofan í hana. Og það er ofan í þessari holu sem þið getið fundið þetta efni,” sagði Daupnir en pírði síðan rauð augun svo þau skutu gneistum á hópinn. "En hlustið nú, því það er ekki sama hvernig þið náið í efnið," bætti hann við. Skrattarnir lögðu vandlega við hlustir.

"Fjórir ykkar verðið að fara ofan í lautina á nákvæmlega því andartaki þegar dagur og nótt mætast því annars munuð þið aldrei komast lifandi upp úr henni aftur. Þegar þið eruð komnir ofan í verðið þið að raða ykkur í kringum steininn, einn við hverja hlið, og þið verðið að klifra upp hann á nákvæmlega sama tíma og nákvæmlega sama hraða því annars veltur hann og kremur ykkur alla til bana. Og þegar þið eruð komnir upp á steininn verður einn ykkar að troða klónni ofan í holuna og ná í handfylli af því sem það er. Í einni lúku eru öll þau efni sem gera eyðimörkina að því dauða landi sem hún er; þarna eru sandkornin sem fjúka í vit og augu manna í rokhviðum, gryfjurnar og kviksyndin sem soga óvarkára vegfarendur niður í dauðann, broddar kaktusanna sem vaxa í auðninni og eitur skriðdýranna sem fela sig í sandinum, reiðubúin til að stökkva upp og höggva. Þessi efni verðið þið að taka upp úr holunni á nákvæmlega því augnabliki þegar dagur verður að nótt og halda þeim hátt á loft í ljósaskiptunum svo þau nái bæði að soga inn í sig hita dagsins og kulda næturinnar. Þetta efni verðið þið síðan að flytja til kölska og afhenda honum með kveðju frá mér."

Skrattarnir litu hver á annan og síðan aftur á Daupni. "Þetta efni hljómar hættulegt," urraði einn þeirra, "hvernig getum við geymt það án þess að það verði okkur að bana?" Daupnir hló illyrmislega. "Þarna var vel spurt, því ef þið hefðuð reynt að geyma efnið í lófa eða vasa hefðuð þið allir haft bana af, mér til mikillar skemmtunar," sagði hann glottandi. Hann smellti tveimur klóm saman og tveir sporðdrekar hlupu eitthvert inn í hellinn. Þeir komu til baka að bragði og báru á milli sín heldur snjáðan og ótótlegan strigapoka sem þeir réttu Daupni. "Ég ætla að lána ykkur þessa skjóðu til að geyma efnið í. Hún ber ekki mikið yfir sér, en er þó þeirri náttúru gædd að hún getur geymt og varðveitt hvaða efni sem er án þess að breyting verði á því. Auk þess kemst ekkert út úr skjóðunni þegar á annað borð er búið að loka henni, nema hún sé opnuð með sömu klóm og lokuðu henni. Setjið efnið í þessa skjóðu á því augnabliki sem ég sagði ykkur áður frá og þá ætti ykkur að farnast vel," sagði Daupnir, henti henni í skrattana og skipaði nokkrum þjóna sinna að sýna þeim hvar lautin væri.

Nokkrir sporðdrekar og höggormar liðuðust af stað inn í eyðimörkina og skrattarnir héldu í humátt á eftir. Hersingin ferðaðist sleitulaust í marga daga og margar nætur án mikillar hvíldar. Þar kom að því að hópurinn kom að lautinni. Röðuðu skriðdýrin sér meðfram barminum og einn sporðdrekinn benti með klónni á steininn sem sat makindalega á botni lautarinnar eins og hann væri að sleikja sólskinið í rólegheitum.

Enn var nokkur tími til ljósaskiptanna. Settust skrattarnir því niður og hvíldu sig um leið og þeir rifust um hverjir þeirra ættu að hætta sér ofan í lautina. Enginn þeirra vildi fara, enda þótti þeim öllum ljóst að ekkert mátti út af bregða til að þeir fengju allir skjótan en hræðilegan dauðdaga. Eftir langt og strangt rifrildi endaði rimman með því að fjórir minnstu skrattarnir voru valdir til verksins þrátt fyrir áköf mótmæli þeirra sjálfra. "Ef þið farið ekki niður í lautina þegar dagur og nótt mætast kasta ég ykkur sjálfur þangað ofan í núna og þá getið þið verið vissir um að þið brennið til dauða. Hvað sem þið veljið er öruggt að þið farið ofan í lautina, en þið megið ráða hvort þið farið núna eða á réttu augnabliki," þrumaði stærsti og sterkasti skrattinn á þá svo þeir lyppuðust niður og þorðu ekki annað en að samþykkja ráðahaginn.

Þar kom að því að sólin tók að hníga til viðar og tunglið fór að gera sig líklegt til að klifra upp á himininn í staðinn. Minnstu skröttunum til nokkurs léttis sáu þeir að skilin milli dags og nætur voru nokkuð skýr því í stað þess að nóttin færðist yfir eyðimörkina smátt og smátt var eins og svartur veggur mjakaðist hægt og rólega til þeirra. Þeir tóku sér stöðu og þegar svarti veggurinn byrjaði að þokast ofan í lautina röltu þeir niður með honum. Eftir því sem þeir klifruðu dýpra ofan í lautina fundu þeir hvernig hitinn jókst stöðugt fyrir framan þá og hvernig kuldinn magnaðist í sífellu fyrir aftan þá. Hitinn og kuldinn voru orðin nánast óbærileg þegar skrattarnir náðu niður á botn lautarinnar og þurftu þeir að beita öllum sínum lífs og sálar kröftum til að halda áfram með verkefni sitt. Þeir tóku sér allir stöðu við steininn, hver á sinni hlið og eftir að hafa talið taktinn upp að þremur hófu þeir allir að klífa upp steininn. Það gekk vel þrátt fyrir að steinninn væri alsettur sleipu slímefni. Skrattar eru enda prýðilegir í öllu klifri. Þeir eru sterkir í höndum og fótum og með öflugar klær og þurfa því ekki margar nibbur á steinum til að geta vippað sér upp án mikillar fyrirhafnar. Voru þeir ekki lengi á leiðinni upp og stóðu nú uppi á steininum með brunasár og kalbletti og virtu holuna fyrir sér. Einn þeirra tók síðan af skarið, tróð höndinni ofan í holuna. Næstu andartök voru hræðileg. Um leið og skrattinn litli snerti efnið fann hann hvernig það byrjaði að éta upp höndina á honum. Sleppti hann því efninu og reif höndina öskrandi úr holunni.
"Hvar er efnið?" þrumaði einn félaga hans.
"Ég gat ekki haldið því," volaði skrattinn, "það át upp höndina á mér og ég varð að sleppa af því takinu."
"Þú skalt finna hvernig það er að líða kvalir fyrir mistökin," þrumaði félaginn, þreif í litla skrattann og henti honum inn í dagsljósið sem var á góðri leið með að svífa fram hjá steininum. Litli skrattinn flaug öskrandi inn í ljósið þar sem hann byrjaði að sviðna, brenna og bráðna og fuðraði hann upp áður en hann lenti á jörðinni. Félagi hans rak því næst höndina ofan í holuna og þrátt fyrir nístandi sársauka sem skar í gegnum merg og bein greip hann í efnið, tók lúkufylli af því upp úr holunni, rétti höndina fyrst upp í dagsljósið og síðan næturhúmið áður en hann henti því í skjóðuna sem Daupnir hafði látið hópinn fá. Datt hann því næst dauður niður. Skrattarnir tveir sem eftir voru stukku niður af steininum og fylgdu myrkurveggnum upp úr lautinni aftur. Beittu þeir öllum sínum kröftum til að rétta forystuskrattanum skjóðuna með efninu rétt áður en þeir duttu niður dauðir.

Forystuskrattinn leit á hræin sem lágu lífvana við fætur hans og stjakaði þeim síðan ofan í lautina með. Hann lokaði því næst skjóðunni með léttu handtaki, skellti henni á bakið og gekk í fararbroddi hinna skrattanna heim til kölska, sem stóð við stóran suðupott og beið eftir hráefnum útsendara sinna.
"Hvað ertu með þarna handa mér?" spurði kölski spenntur.
"Þetta hráefni fékk ég að tilvísun Daupnis, sem sendi það með kærri kveðju," svaraði skrattinn, opnaði skjóðuna og hellti ofan í pottinn. Kölski glennti upp augun þegar hann sá hvaða ófögnuð skrattarnir komu með og fór að glotta. Glottið breyttist síðan í lágvært fliss og að lokum var hann farinn að hlæja illskuhlátri.
"Ef hinir hóparnir sem ég sendi út eiga eftir að standa sig jafn vel og þið er öruggt að við eigum eftir að búa til hlut sem mun standa öllum öðrum hlutum framar hvað illsku varðar," rumdi hann í gegnum hláturinn. "Við verðum að muna eftir að bjóða Daupni hingað til að vera viðstaddur sköpun hlutarins. Hann á ekkert minna skilið fyrir hjálpina. En þangað til hinir koma skuluð þið drekka og skemmta ykkur í ríki mínu." Skrattarnir kinkuðu kolli og héldu ánægðir á braut á meðan kölski neri saman höndum af ánægju yfir ráðabrugginu og lét hugann reika um hvernig púkunum gengi að ná sínu hráefni.

Á morgun kemur í ljós hvernig þeim farnaðist.



Home



Weblog Commenting by HaloScan.com