þetta er allt blekking

skoða

23.10.04

"Mér finnst þú rosalega góður, pabbi," sagði Dagbjört í dag um leið og hún tók utan um hálsinn á mér, knúsaði mig og strauk hökunni blíðlega yfir kinnina á mér.

Mér hlýnaði um hjartaræturnar og endurgalt knúsið eins vel og ég mögulega gat. Ég hélt utan um litla kroppinn hennar í smástund, sleppti henni síðan og gaf henni góðan koss á kinnina. "Takk fyrir þetta, elskan mín," sagði ég. "Það var mjög gaman að heyra þetta."

Hún brosti blíðlega til mín, tók aftur um hálsinn á mér og strauk hökunni aftur yfir kinnina á mér og hálsinn. "Þú ert svo góður," sagði hún aftur. "Þú ert svo góður til að klóra sér á hökunni með skegginu þínu þegar mann klæjar."


Ég var að framkvæma ákaflega mikilvæga mannfræði- og upplýsingatæknitilraun. Ég skráði mig sumsé inn á einhvern vefhring og þegar ég var beðinn um að slá inn leitarorð fyrir síðuna mína valdi ég að sjálfsögðu fjöldann allan af klámfengnum orðum, sem og grafískum lýsingum á kynferðisathöfnum. Nú verður gaman að sjá hve margir heimsækja mig í máttlausri leit að góðri og örvandi skemmtun. Það eru vonbrigði í uppsiglingu.



22.10.04

Ég er ekkert sérlega góður í að segja brandara þegar ég er nývaknaður, að því er virðist.

Í dag, undir kvöld, vorum við Sindri á heimleið frá Norðfirði. Hann ók og ég sat í framsætinu og horfði út um gluggann. Miðstöðin var stillt á hæsta styrk og hitinn í bílnum var orðinn töluverður. Við bættist að ég var orðinn töluvert þreyttur. Dottaði ég því rétt um það bil sem við vorum að aka út úr Neskaupstað. Ég man síðan ekki eftir mér fyrr en við vorum komnir hálfa leiðina upp í fjall, en þá hrökk ég upp með andfælum við það að Sindri snarhægði á sér og blótaði með miklu offorsi. Í gegnum svefndrykkjuna leit ég fram á veginn og sá að tveir ökumenn höfðu, af mikilli heimsku geri ég ráð fyrir, ákveðið að stöðva bílana sína á miðri akreininni í einni blindbeygjunni. Þegar þeir sáu okkur hemla fyrir aftan þá óku þeir aðeins af stað og stöðvuðu svo bara aftur þegar þeir voru komnir úr beygjunni, þó línan í götunni væri enn óbrotin. Sindri bölvaði og ragnaði yfir þessum vitleysingum og á meðan við ókum fram úr þeim gáfum við þeim eins illt auga og við mögulega gátum.

Þegar við vorum komnir fram úr ákvað ég að reyna aðeins að létta lundina hjá Sindra sem var enn að bölva ofan í bringuna á sér.

Ég: "Jæja, við getum allavega litið á björtu hliðarnar."

Sindri: "Nú, hvað?"

Ég: "Ef ég hefði verið að keyra, þá hefði þetta farið miklu verr."

Sindri: "Af hverju segirðu það?"

Ég: "Af því að ég sofnaði þegar við vorum að keyra út úr Neskaupstað. Þar af leiðandi hefði ég ekki séð að bílarnir voru kyrrstæðir og örugglega keyrt aftan á þá."

Þögn.

Sindri: "En ef þú sofnaðir rétt utan við Neskaupstað hefðir þú verið löngu búinn að keyra út af."

Löng þögn.

Ég: "Já, ég veit."


Fyrir fáeinum vikum síðan hafði ég ekki hugmynd um að steinull væri hræðilegur ófögnuður. Undanfarna daga hef ég hins vegar fengið að kynnast því af eigin raun.

Ég hef að undanförnu, meðal annarra verka, dundað mér við að skera niður steinullarplötur og fylla veggi með þeim. Í því felst að mæla breidd og hæð veggjanna og skera síðan niður rétta fermetratölu úr nokkrum brettum af steinull. Fyrirfram lætur það verk ekki mikið yfir sér og virðist vel á færi vanhæfustu manna. En það hefur samt reynst mér ótrúlega erfitt.

Erfiðleikarnir felast alls ekki í því að mér veitist örðugt að reikna út fermetrana, né heldur að ég sé alltaf að skera ullina skakkt. Það leikur í höndunum á mér. Vandamálið er það að ég á voðalega erfitt að vera innan um steinull sem verið er að böðlast með. Ég fer að finna fyrir henni í hálsinum og lungunum og á erfitt með að anda venjulega, augun fyllast af tárum, mig klæjar út um allt og hendurnar verða sárar og rauðar. Ég get ekki unnið neitt með hana án þess að vera með öndunargrímu og í hönskum. Sennilega er ég bara með ofnæmi fyrir ullinni, en það kemur samt alveg herfilega illa út að vera sá eini sem er brynvarinn frá toppi til táar á meðan allir hinir þurfa enga vörn.

Það væri gaman að fá að vita úr hvaða ósköpum steinull er búin til. Kæmi mér ekki á óvart þó döðlur væru í uppskriftinni.



21.10.04

Það er náungi á Norðfirði sem lætur mig greinilega fara óstjórnlega í taugarnar á sér. Ég veit ekkert af hverju, þar sem ég hef ekkert gert honum neitt. Svo ég viti. En ég finn mjög vel fyrir fjandskap í minn garð frá hans hendi.

Ef við í Trékarli erum að vinna á Norðfirði gerir þessi maður sér yfirleitt ferð til okkar til að heilsa upp á mannskapinn. Yfirleitt fer það þannig fram að hann heilsar upp á Pétur og spjallar aðeins við hann, spyr Sindra hvað sé að frétta, rabbar við Búra um daginn og veginn, gengur snúðugt fram hjá mér án þess að segja orð og heilsar síðan kumpánlega upp á Ragga og skiptist á gamanmálum við hann.

Um daginn gerði ég tilraun til að heilsa upp á hann að fyrra bragði. Hann þóttist ekkert heyra í mér, heldur gekk fram hjá og fór að tala við aðra menn. Í gær prófaði ég aftur að bjóða honum góðan dag. Hann svaraði ekki, heldur fór og bauð Sindra góðan dag. Og svo í dag gerðist þetta einu sinni enn, hann kom og heilsaði upp á Pétur með miklum virktum, grínaðist aðeins við Sindra, heilsaði upp á Búra og spurði hann hvernig heilsan væri, gekk snúðugt fram hjá mér um leið og hann horfði í hina áttina og fór og heilsaði upp á Ragga í staðinn.

Það er alveg ljóst að þessum manni er eitthvað voðalega mikið í nöp við mig. Ekki veit ég af hverju og ætla svosem ekki að skipta mér af því. Og ég ætla sko ekki að fara að leggjast niður á hans lágkúrulega og barnalega plan og fara að tala illa um hann. Enda nenni ég sko ekkert að eyða orðum í einhverja kúkalabba.


Áðan poppaði gluggi upp í tölvunni minni og spurði mig hvort ég vildi náðarsamlegast hlaða inn einhverju sem kallaðist Blotsbar. Ég sendi svar til baka og sagði, sannleikanum samkvæmt, að ég treysti mér ekki til þess fyrr en ég væri búinn að verða mér úti um Schlüssblüssen. Ég bíð spenntur eftir svari.



19.10.04

Í öðrum fréttum:

Er veðurtepptur í snjónum á Eskifirði. Átti að mæta í staðlotu í Kennaraháskólanum í morgun og tvo næstu daga. Er ekki bjartsýnn á að það náist. Ekki hefur verið flogið frá Egilsstöðum síðan í gærmorgun. En það skiptir svosem ekki miklu máli því Fagridalurinn er búinn að vera ófær og því hefði ég hvort eð er ekkert komist út á völl. En það skiptir heldur ekki máli því bíllinn er fastur í skafli hérna rétt hjá húsinu okkar svo við hefðum hvort eð er ekkert komist upp í Fagradal. Það er um að gera að veðurteppast almennilega fyrst maður er að því á annað borð.

Ennfremur:

Litli kúturinn er fárveikur. Hann skaut okkur foreldrum sínum rækilega skelk í bringu í fyrrinótt þegar hann vaknaði við það að svelgjast stöðugt á og súpa hveljur. Svo lokaðist fyrir allt saman og hann gat ekki andað. Það ástand varði sjálfsagt ekki nema í nokkrar sekúndur, en mér fannst það vera heil eilífð á meðan varir hans blánuðu og hann fálmaði bjargarlaus út í loftið. Aldrei verið eins hræddur, held ég bara. Hulda hringdi í lækninn, en um leið náði Karl andanum og gat andað ágætlega eftir það, þó þvingunin væri örlítil. Læknirinn stökk á fætur og óð í gegnum hríðina til okkar í svo miklum flýti að hann gleymdi nánast öllum verkfærum á borð við hlustunarpípu og önnur skoðunartæki. Skoðaði samt kútinn með vasaljósi og skeið og úrskurðaði að hann væri kominn með þessa fjárans barkabólgu sem hefur verið að ganga um landið. Skrifaði svo upp á stíla, sagði okkur að setja skálar með vatni á alla ofna til að fá rakt loft í húsið. Annars vildi hann láta strákinn berjast við þetta sjálfan án þess að fá einhver sýklalyf. Ég er sammála þeirri stefnu.

Þetta hefur gengið ágætlega síðan. Sá litli sefur nánast uppréttur í stól í rúminu sínu, á milli þess sem hann grætur af eintómum sársauka í hálsi og augum. Svo öðru hverju reynir hann að drekka, en það gengur eitthvað illa því það er svo sárt að kyngja og ekki er hægt að anda almennilega í gegnum nefið á meðan. En hann er að braggast, sem betur fer.


Það þarf sjálfsagt ekki mikinn bókmenntaspeking til að komast að þeirri niðurstöðu að mér þykja döðlur hreint með ólíkindum vondar á bragðið. Þau skilaboð voru ekki beinlínis dulin í sögunni sem ég er búinn að vera að setja smám saman inn á Netið undanfarna daga.

Nú kynni einhver að varpa fram þeirri gagnrýni, að það sé óþarfi að birta svona langa sögu séu skilaboðin ekki dýpri en það að tala um bragðgæði daðla. Ég er ekki sammála því. Það er auðvitað alveg rétt að ég hefði getað sett fram nokkurn veginn sömu skilaboð á mun styttri og skilvirkari hátt, jafnvel bara í einni setningu: "Mikið ofboðslega finnst mér döðlur vondar." Sú setning er sex orð og tekur mun styttri tíma í lestri en þessar 20 blaðsíður eða svo, sem sagan er. Jafnvel hefði verið hægt að stytta þessa setningu enn frekar, t.d. í fjögur orð: "Mér finnast döðlur vondar," eða þrjú orð: "Döðlur eru vondar." Stysta, og þar með skilvirkasta, setningin sem mér dettur í hug í fljótu bragði er meira að segja bara tvö orð, "Oj, döðlur."

En lengdin á sögunni þjónar sínum tilgangi. Að mínu mati eru döðlur svo vondar að það er ekki hægt að lýsa því í einni setningu. Setningin, "Mér finnast döðlur vondar," segir okkur ekkert voðalega mikið, ekki frekar en setningin, "Gyðingar þjáðust í seinni heimsstyrjöldinni." Hér varð að grípa til sterkari lýsinga með auðskiljanlegum dæmum og þannig varð lengd sögunnar að mikilvægum þætti. Nú getur t.d. eftirfarandi samtal vel átt sér stað:

A: "Hversu vondar eru döðlur á bragðið?"
B: "Svo vondar að það var einhver náungi á Netinu sem bloggaði um það í heila viku og bjó til einhverja sögu út úr því."
A: "Vá, þær eru greinilega mjög vondar."
B: "Þú sagðir það."

Þetta samtal gæti alveg átt sér stað. Persónulega fyndist mér samt þetta samtal skemmtilegra þó það sé sennilega ekki eins líklegt til að fara fram:

A: "Hversu vondar eru döðlur á bragðið?"
B: "Svo vondar að það var einhver náungi á Netinu sem bloggaði um það í heila viku og bjó til einhverja sögu út úr því."
A: "Ja, ég skal segja ykkur það. Og var sagan góð?"
B: "Það veit ég ekkert um, ég átti of annríkt við að stunda kynlíf með 18 ára tvíburum og ofurfyrirsætum um helgina."
A: "Hvað kemur það málinu við?"
B: "Í sjálfu sér ekkert, mig langar bara til að segja öllum frá því."

Þessi samtöl og sagan sjálf svara samt ekki þessum áleitnu spurningum: Hvers vegna í ósköpunum sá maðurinn ástæðu til þess að eyða öllum þessum tíma í að tala illa um döðlur? Hvað gerðist eiginlega til að koma þessari flóðbylgju orða af stað?

Svarið við því er einfalt: Ég sá ástæðu til að vara við þessum ófögnuði í kjölfar þess að ég missti endanlega þolinmæðina. Ég gerði mér grein fyrir því að ég gæti ekki lengur beðið boðanna, heldur yrði að vara við þeirri staðreynd að ofan á hræðilegt bragðið eru döðlur bæði lævísar og brögðóttar og hafa stöðugt í frammi óíþróttamannslega framkomu. Ég hef orðið fyrir barðinu á þessum brögðum daðla nokkuð reglulega í gegnum árin, en í nýlegri erfidrykkju á Eskifirði gekk ég enn einu sinni í gildruna þeirra og fékk endanlega nóg.

Og hvaða lymskubragð skyldi þetta vera? Ég held að allir hafi einhvern tímann lent í þessari skelfingu: Niðurskornar döðlur í kökum líta alveg eins út og súkkulaðispænir.

Þvílík blekking. Þvílík grimmd.



18.10.04

VI - Hluturinn illi verður til

Það er vel kunn staðreynd í undirheimum að ef kölski boðar mann á fund sinn á annað borð, þá er honum afskaplega illa við að þurfa að bíða lengi eftir manni. Fátt er betur til þess fallið að æsa hann upp en að mæta of seint á fund eða aðra samkundu og eru þeir ófáir sem illilega hafa orðið fyrir barðinu á honum af þessum sökum og hlotið grimmileg örlög. Þeirra frægastur var sjálfsagt tröllkarlinn Kópur Haðarson, sem flestir þekktu undir nafninu Hólsfjarðar-Kópur. Sá var á sínum tíma svo ofstopafullur skúrkur og dusilmenni, að jafnvel blóðþyrstir drýslar bliknuðu í samanburði og átti grimmd hans sér engin takmörk. Hann lét sér ekkert fyrir brjósti brenna og hikaði m.a. ekki við að ræna, rupla og myrða hvern sem var, hvort sem það hentaði honum eða ekki. Sagði sagan að grimmd hans væri svo mikil að gróður visnaði og dó við það eitt að hann gengi þar framhjá. Myrkraverk hans urðu enda það fræg að hann varð gerður að grýlu undirheima. Meira að segja skrattar, sem kalla ekki allt ömmu sína hvað grimmd viðkemur, notuðu hann til að hræða börn sín til hlýðni. "Gerðu eins og ég segi, eða Hólsfjarðar-Kópur kemur og sækir þig," var hótun sem fékk kalt vatn til að renna milli skinns og hörunds ungra skratta svo þeir hlýddu foreldrum sínum, skjálfandi á beinunum.

Þessi mikla grimmd náði eðlilega athygli kölska og hann fylgdist með Hólsfjarðar-Kópi fremja hvert illvirkið á fætur öðru, með aðdáun í rauðum augum og gleði í svörtu hjarta. Hann bauð Kópi að gerast sín hægri hönd og við tók hundrað ára tímabil haturs og illsku þar sem þeir félagar ferðuðust um heiminn og eirðu engu. Þetta voru erfiðir tímar og jafnvel sólin lét sjaldan sjá sig þegar Kópur og kölski voru í nágrenninu. Næturnar urðu æ lengri og æ kaldari og dimmt óveðursský deildi út slyddu og hagli í slóð félaganna. En eftir þessi hundrað ár fór heldur að halla undan fæti í samstarfi þeirra.

Það eru skiptar skoðanir um hvað gerðist og hvers vegna leiðir þeirra skildu. Sumir segja að Kópur hafi látið aðdáun kölska á sér hlaupa með sig í gönur og hafi gerst æ kærulausari og óstundvísari, þar til kölski hafi gefist upp á honum og komið honum fyrir kattarnef. Aðrir halda því fram að kölski hafi verið orðinn afbrýðisamur út í frægð Kóps og ákveðið að sýna öðrum undirheimaverum að hann væri ennþá versti og illræmdasti skúrkur sem til væri. Og svo eru enn aðrir sem ganga jafnvel svo langt að halda því fram að kölski hafi ekki aðeins verið afbrýðisamur, heldur verið orðinn logandi hræddur við Kóp og hafi því ákveðið að drepa hann áður en hann næði yfirráðum í víti og steypti kölska sjálfum af stóli. Sjálfsagt verður endalaust deilt um þessar þrjár kenningar, en eitt er satt og ófrávíkjanlegt, og það er sú staðreynd að einn daginn boðaði kölski hann á fund sem hann mætti alltof seint á. Sá dagur mun aldrei renna þeim úr minni, er vitni urðu að samskiptum kölska og Hólsfjarðar-Kóps í kjölfarið. Og þeir sem ekki urðu vitni að ósköpunum hafa fengið af því margar fjálglegar lýsingar hvað gerðist þennan örlagaríka dag.

Kópur mætti of seint til fundarins. Alltof seint, meira að segja, svo skeikaði næstum fjórum mínútum. Aldrei í sögu vítis hafði nokkur dirfst að mæta svo seint til fundar við kölska, enda loguðu í honum augun þegar Kópur lét loks sjá sig.
"Hvernig dirfist þú að mæta svo seint á minn fund?" þrumaði kölski yfir hann. Hann var svo reiður að orðin skutu gneistum.
"Ég mæti þegar mér sýnist," svaraði Hólsfjarðar-Kópur snúðugt, "og þú sættir þig við það án nokkurra orðalenginga."
Þetta svar kom af stað einhverju mesta bræðiskasti sem undirheimaverur hafa nokkurn tímann orðið vitni að og þorðu þær ekki einu sinni að anda á meðan ósköpin áttu sér stað.
"Ég skal kenna þér að sýna mér tilhlýðilega virðingu," öskraði kölski af svo mikilli heift að jörðin nötraði og skalf, eldfjöll sprungu svo eldtungur teygðu sig hátt til himins og gríðarstórar öldur skullu á klettum og ströndum. Hann tók því næst í lurginn á Hólsfjarðar-Kópi, hóf hann á loft, hafði endaskipti á honum og rak hann af krafti með höfuðið á undan ofan í nærliggjandi tjörupoll svo ekki einu sinni tærnar stóðu upp úr. Pollinn skóflaði hann síðan upp með stórri skjólu, hnoðaði bolta úr tjörunni, hrækti á hann og kastaði honum svo með Kóp innanborðs lengst niður í dimmustu og heitustu iður vítis. Um leið lagði hann það á boltann að hann skyldi snúast til eilífðarnóns í iðrum vítis og að tjaran skyldi aldrei hætta að éta sig inn í hörund Hólsfjarðar-Kóps. Hrákinn breyttist í stóra marglyttu sem vomir yfir boltanum og nái Kópur einhvern tímann að brjótast með hönd, höfuð eða fót út úr boltanum bíður marglyttan ekki boðanna heldur ræðst á hann með brennandi eiturstungum.

Stundum nær Kópur að brjótast lítið eitt út og þegar marglyttan ræðst á hann rekur hann upp heilmikið öskur, stynur hátt og gnístir tönnum. Við, dauðlegir menn, getum skynjað hvenær marglyttan hefur stungið Kóp, því við öskur hans skelfur jörð víða um heim, við stunur hans dynja fellibyljir og hvirfilvindar á okkur og þegar hann gnístir tönnum slær niður eldingum sem skilja eftir sig sviðna akra og brennd tré.

Ef það er eitthvað sem þessi atburður hefur kennt verum undirheimanna, þá er það að vera stundvís þegar kölski hefur á annað borð boðað mann á fund. Höfðingjarnir fjórir, Daupnir, Öðunn, Lundi og Ráma, biðu því ekki boðanna þegar þau fengu boð um að vera viðstödd sköpun hlutarins illa heldur fóru rakleitt til vítis og voru mætt töluvert löngu áður en fundurinn átti að hefjast. Það verður ekki beint sagt að þarna hafi orðið fagnaðarfundir, því þótt þau bæru að mörgu leyti virðingu hvert fyrir öðru þá var enn meiri rígur á milli þeirra. Daupnir og Ráma voru t.d. alla jafna svarnir óvinir, enda hafa snákar og sporðdrekar lítið álit á kóngulóm, og öfugt. Lunda var illa við Öðun, þar sem honum fannst hann of mennskur og Öðunn var í nöp við alla hina höfðingjana af ýmsum ástæðum. Honum stóð beygur af Lunda þar sem hann hafði ekki bara dáið einu sinni, heldur tvisvar, og eins og áður hefur komið fram er Öðunn ákaflega lífhræddur fyrir hönd nauts- og hestshlutanna sinna. Daupnir var í huga Öðuns einfaldlega viðurstyggilegt kvikindi og honum fannst lítið til Rámu koma, vegna þess að honum fannst hún vera hinn mesti aumingi. Við flest önnur tækifæri hefðu höfðingjarnir allir sjálfsagt flogist á þar til aðeins einn hefði staðið uppi, en þar sem vitað var að kölski var á móti öllum höfðingjaríg á fundum sínum neyddust þau til að koma hvert fram við annað af tilgerðarlegri kurteisi. Þau voru því sennilega þeirri stund fegnust þegar kölski ávarpaði þau og bað þau um að ganga til fundar við sig, því þá gátu þau látið af leikaraskapnum.

Þegar kölski hafði heilsað þeim öllum gekk hann að suðupottinum sem stóð úti á miðju gólfi, opnaði hann, virti fyrir sér hráefnin sem þar voru saman komin og leit því næst yfir hópinn.
"Daupnir," kallaði hann og Daupnir hljóp fram, beygði sig fram á framfæturna og hneigði snákshöfuðið niður í gólfið.
"Ég þakka þér Daupnir, fyrir framlag þitt í suðu hlutarins illa. Með þinni hjálp náðu skrattarnir að heimsækja Sköpunarlautina og ná í handfylli af efninu sem gera eyðimörkina að því dauða landi sem hún er - sandkornunum sem fjúka í vit og augu manna í rokhviðum, gryfjurnar og kviksyndin sem soga óvarkára vegfarendur niður í dauðann, brodda kaktusanna sem vaxa í auðninni og eitur skriðdýranna sem fela sig í sandinum, reiðubúin til að stökkva upp og höggva. Þetta var vissulega gott framlag."
Daupnir hneigði sig aftur og bakkaði til hinna höfðingjanna.
"Öðunn," kallaði kölski og Öðunn steig fram og hneigði sig.
"Ég þakka þér, Öðunn, fyrir þitt framlag í suðuna, enda var það hráefni jafnvel betra en framlag Daupnis."
Öðunn leit glottandi til baka á Daupni sem gaf honum illt auga á móti.
"Þú sendir púkana í iður Leifakletts þar sem Leifasnigillinn lifir og með þinni hjálp náðu þeir að kreista út úr honum úrganginn. Þín gjöf var úrgangurinn sem gengur af úrgangi úrgangsins og þakka ég þér fyrir stórkostlegt framlag."
Öðunn hneigði sig aftur, enn hátíðlegar en áður og gekk brosandi í hóp hinna.
"Lundi," kallaði kölski og Lundi leið fram og heilsaði með konunglegri handasveiflu og höfuðhreyfingu.
"Þitt framlag, Lundi, varla síðra en Öðuns, en þú afhentir drýslunum sjálfan dauðann í sinni tærustu mynd - dauðan anda sem sjálfur hafði týnt lífinu. Ég þakka einnig fyrir ábendinguna um að skella í blönduna einhverju viðbjóðslegasta kvikindi sem víti hefur nokkurn tímann séð, nefnilega foringja drýslanna. Sá átti betur heima í blöndunni en margt annað og ég þakka þér fyrir frábært framlag."
Lundi hneigði höfuðið með hægri reisn og sveif til baka til hinna höfðingjanna.
"Ráma," kallaði kölski og Ráma hljóp fram og hneigði sig fram á framfæturna.
"Ég þakka þér, Ráma, fyrir þitt framlag í blönduna. Þú sendir uppvakningana í Lífvana tréð og vísaðir þeim á efnið sem þar er geymt og stendur fyrir allt sem gerir skóginn fráhrindandi; límið í vef kóngulónna, leirinn sem finnst undir stærsta steininum, eitrið á húð froskanna í trjánum og húð víunnar sem flugurnar verpa í sár annarra dýra. Ég þakka þér fyrir gott framlag."
Ráma hneigði sig aftur og bakkaði í hóp höfðingjanna.

Kölski leit aftur yfir hóp höfðingjanna og sagði, "Nú, þegar búið er að þakka öllum sem þakkir eiga skildar, þá er viðeigandi að hefja suðuna." Hann tók því pottinn og setti hann yfir einn eldinn sem brann í salnum. Höfðingjarnir fylgdust spenntir með aðgerðunum og ekki minnkaði spennan þegar potturinn fór að hitna og torkennileg hljóð tóku að berast upp úr honum. Hljóðin líktust helst einhvers konar samblandi af þykkum bullsjóðandi graut, knaskinu í harðri skel skordýrs sem stigið er á og væli í sorgmæddum hundi. Svartur reykur liðaðist upp úr pottinum og viðurstyggileg stybba fyllt hvern krók og kima í sölum vítis, svo jafnvel harðsvírustu demónar fengu tár í augun af einskærum hrolli og viðbjóði.

Hljóðið og stybban mögnuðust og skyndilega var eins og eldingu hefði lostið niður í pottinn, ljósglæringarnar stóðu í allar áttir og reykur í öllum regnbogans litum stóð eins og þykkur mökkur upp úr pottinum. Glæringarnar og reykurinn jukust smám saman áður en suðunni lauk með ærandi háum hvelli. Og þá, eins og hendi hefði verið veifað, hurfu eldglæringarnar og reykurinn liðaðist burt. Kölski leit ofan í pottinn og lymskufullt glott færðist yfir andlit hans. "Ég held að blandan okkar sé tilbúin," sagði hann sigri hrósandi og stjakaði við pottinum svo innihald hans dreifðist um gólfið.

Höfðingjarnir störðu allir á þessa undarlegu brúnu hrúgu sem lá eins og hráviði um gólfið. "Hvað er þetta?" spurði Daupnir og allir höfðingjarnir litu á kölska. "Við eigum eftir að finna nafn á þetta," svaraði kölski og leit aftur á höfðingjana.
"Þetta ætti að heita Daupnissandur," sagði Daupnir ákveðinn.
"Ekki að ræða það," baulaði Öðunn, "þetta ætti mun frekar að heita Öðunssnigill."
"Það þykir mér hvorki merkilegt nafn né rétt," sagði Lundi, "mun frekar þykir mér Lundasál viðeigandi."
"Verið ekki með þessa vitleysu," hvæsti Ráma, "ég vil að þetta heiti Rámulím."
Höfðingjarnir þráttuðu um þetta þar til kölski rétti upp höndina og bað þá um að hætta. Þeir litu allir á hann.
"Mér þykir viðeigandi," sagði hann þegar þögn var komin á, "að þessi hlutur beri hluta af nafni ykkar allra. Við getum til dæmis tekið fyrsta stafinn í nafni ykkar allra, raðað þeim saman og fengið nafn á hlutinn."
"Ég skil," sagði Lundi, "eins og t.d. Lörd eða Röld."
"Já, eitthvað svoleiðis," svaraði kölski, "nema hvað hvorug þessara hugmynda nær almennilega þeirri illsku sem ég vil að stafi af nafninu. Þessi nöfn skjóta engum skelk í bringu, heldur eru líklegri til að valda kátínu. Því ganga þau ekki."
Höfðingjarnir hugsuðu sig betur um og stuttu síðar kom Öðunn með uppástungu.
"Nú sagðir þú áðan að framlög okkar í blönduna væru misgóðar. Þú hrósaðir mér og Lunda sérstaklega fyrir stórkostleg framlög, á meðan þú sagðir að framlög Daupnis og Rámu væru aðeins góð."
"Rétt er það," svaraði kölski.
"Er þá ekki viðeigandi að við Lundi fáum að nota tvo fyrstu stafina í okkar nöfnum á meðan Daupnir og Ráma fá bara fyrsta stafinn?"
Kölski hugsaði sig lítillega um, en kinkaði síðan kolli. "Þetta er góð hugmynd hjá þér Öðunn. Nú þurfum við bara að raða stöfunum upp svo við náum fram grimmdinni í orðunum."
"Ég vil eiga fyrsta stafinn," kallaði Daupnir, "ég var líka fyrstur til að skila mínu framlagi." Kölski samþykkti þann ráðahag.
"Ég vil eiga annan stafinn," hvæsti Ráma, "mitt framlag var ekki síðra en Daupnis."
Hún leit á hina höfðingjana og vonaðist eftir samþykki, en þeir horfðu bara á hana með vanþóknunarsvip. Eftir nokkra stund tók Ráma að ókyrrast. "Eða... sko..." stamaði hún, "ég væri til í að eiga annan stafinn ef ykkur er sama."
"Vertu ekki með þessa vitleysu Ráma," kallaði Öðunn svo Ráma hrökk í kút. "Ég ætla að eiga tvo næstu stafi."
"Þá tek ég næstu tvo," heimtaði Lundi, "ég fer fjandakornið ekki að láta raða mér í röð á eftir kóngulóarræksni." Ráma hvessti á hann augun en þorði ekki að aðhafast neitt.
"Ég tek þá bara síðasta stafinn," muldraði hún og skalf af geðshræringu.

"Prýðilegt," sagði kölski, "við erum þá komin með nafn á þennan bölvaða hlut. Hann heitir semsagt D - Öð - Lu - R. Döðlur."
Allir höfðingjarnir hrylltu sig við það eitt að heyra orðið.
"Döðlur. Það er hryllilegt orð," sögðu þeir allir í kór.
"Bíðið þá þangað til þið smakkið þennan óþverra, ég ætla nefnilega að plata fólk til að éta þetta," sagði kölski.

Og þannig er sagan af því hvernig döðlur urðu til.



Home



Weblog Commenting by HaloScan.com